Tvær nýjar vísindagreinar um Norðurhöf

Straumakerfi þess hluta Norðurhafa sem vísindagreinarnar fjalla um Straumakerfi þess hluta Norðurhafa sem vísindagreinarnar fjalla um

Nýlega hafa birst tvær vísindagreinar sem fjalla hafsvæðin fyrir norðan Ísland og byggja að hluta á gögnun Hafrannsóknastofnunar. Sólveig R. Ólafsdóttir, sérfræðingur á Umhverfissviði er einn höfunda beggja greinanna.

Hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Noregs sem kallað er „Nordic Seas“ er eitt þeirra svæða í heimshöfunum þar sem djúpsjór getur myndast. Þetta ferli, sem gerist vegna kólnunar við yfirborð að vetri, færir eðlisþungan yfirborðssjó niður á meira dýpi. Þar sem þessi sjór hefur nýlega verið í tengslum við andrúmsloftið felur þetta m.a. í sér flutning koldíoxíðs (antrópógenísks kolefnis; Cant) og súrefnis frá andrúmslofti niður í dýpri lög sjávar. Upptaka sjávar á koldíoxíði úr andrúmslofti og flutningur þess niður í dýpri lög sjávar felur þannig í sér lækkun á styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu.

Djúpsjórinn sem myndast á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Noregs berst suður til Atlantshafs í gegnum skörð í djúpsjávarhryggnum milli Grænlands og Skotlands. Sjórinn sem streymir yfir hrygginn milli Íslands og Grænlands kallast á ensku „Denmark Strait Overflow Water“ (DSOW). Þessi sjór verður hluti af stóru hita og seltuhringrásinni í heimshöfunum og er því mikill áhugi á að skýra uppruna sjógerðanna og hvaða ytri þættir geta haft áhrif þar á.

Fyrri greinin, „Formation and pathways of dense water in the Nordic Seas based on a regional inversion“, fjallar um uppruna þessa sjávar (DSOW). Flæði hans er nokkuð vel þekkt en óvissa er með upprunann og eftir hvaða leiðum sjórinn berst að Grænlandssundi. Í greininni er notuð aðferð sem sameinar eðlis- og efnafræðileg gögn til að rekja upprunann.

Í seinni greininni, „Decadal Changes in Ventilation and Anthropogenic Carbon in the Nordic Seas“, eru metnar breytingar á samkiptum sjávar og andrúmslofts í Norðurhöfum síðustu áratugi en verulegar breytingar hafa sést á myndun sjógerða og eiginleikum þeirra á tímabilinu. Notaðar eru breytingar á áætlaðri súrefnisnotkun (AOU) og breytingar á þeim tíma sem liðið hefur frá því sjórinn var síðast í tengslum við andrúmsloftið sem áætlaðar eru út frá mælingum á CFC sporefnum en styrkbreytingar og heildarmagn antrópógenísks kolefnis er tengt samskiptum sjávar og andrúmslofts.

Tenglar á greinarnar:

Formation and pathways of dense water in the Nordic Seas based on a regional inversion

Decadal Changes in Ventilation and Anthropogenic Carbon in the Nordic Seas

Straumakerfi þess hluta Norðurhafa sem vísindagreinarnar fjalla um. Þar fer fram myndun djúpsjávar og flutningur koldíoxíðs og súrefnis úr efri lögum sjávar niður í dýpri lög.

Straumakerfi þess hluta Norðurhafa sem vísindagreinarnar fjalla um. Þar fer fram myndun djúpsjávar og flutningur koldíoxíðs og súrefnis úr efri lögum sjávar niður í dýpri lög.  


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?