Á undanförnum áratugum hafa verið þróaðar nýjar aðferðir til rannsókna á hvölum sem ekki byggja á veiðum. Með því að greina einstaklinga á ljósmyndum má safna margvíslegum upplýsingum um líffræði og atferli hvala. Far einstaklinga og jafnvel stofnstærðir er unnt að meta með myndatökum á sambærilegan hátt og í hefðbundnum merkingar/endurheimtutilraunum. Slíkar rannsóknir eru tímafrekar og byggjast á samstarfi rannsóknastofnana víða um heim sem ráða yfir ljósmyndabönkum með einstaklingsgreinanlegum myndum. Á Hafrannsóknastofnun hefur þessari rannsóknaaðferð verið beitt skipulega við hvalarannsóknir síðan 1985.
Markmið þessa verkefnis er að rekja ferðir hvala, meta viðveru þeirra við landið og atferli með greiningu einstaklinga af myndum og lífsýnum.
Þetta eru langtímarannsóknir sem geta skilað markverðum niðurstöðum áratugum eftir söfnun fyrstu mynda eða sýna t.d. varðandi far, langlífi, frjósemi og félagskerfi. Skilvirkni þessarar rannsóknaaðferðar byggist á því að gögnin séu varðveitt í gagnagrunni sem inniheldur ljósmyndirnar sjálfar ásamt tengdum upplýsingum auk erfðafræðigagna. Samstarf hefur tekist við vísindamenn utan Hafrannsóknastofnunar um að stofnunin hýsi miðlægan ljósmyndagagnagrunn fyrir íslenska hafsvæðið.
Hvalategundir henta misvel til greiningar einstaklinga út frá ljósmyndum. Mest reynsla er komin af neðra borði sporðblöðku hnúfubaksins, en einnig er mikill breytileiki í litamynstri háhyrninga og steypireyða. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar með þessari aðferð hafa hingað til mest beinst af þessum þrem tegundum en einnig hefur ljósmyndagreiningu verið beitt á langreyði, hrefnu og hnýðing hér við land. Rannsóknirnar hafa m.a. sýnt fram á far „íslenskra“ hnúfubaka til Karíbahafs og Grænhöfðaeyja og tengsl milli steypireyða við Ísland og Máritaníu í V-Afríku.
Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á háhyrningi á síldveiðimiðum hafa verið stundaðar frá árinu 1981 þar sem yfir 500 einstaklingar hafa safnast. Niðurstöður þessara athugana hafa m.a. sýnt að einstaklingar frá Austfjörðum og Breiðafirði að hausti hafa sést við Vestmannaeyjar að sumri. Sýnt hefur verið fram á far háhyrninga milli Íslands og Skotlands en samanburður við myndabanka frá Noregi hefur ekki leitt í ljós far háhyrninga milli svæðanna.
Síða uppfærð 23. júní 2021.