Samfélagsmiðlar og málstofa

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar skipa stóran sess í samfélaginu og því er Hafrannsóknastofnun með síður á Facebook, Instagram og YouTube. Markmiðið með þáttöku á samfélagsmiðlum er að gera starfsemina sýnilegri og stuðla að fræðslu almennings.

Á Facebook eru aðallega birtar fréttir af fyrirlestrum, viðburðum og útgáfu. Instagram síðan er hugsuð sem óformlegri miðill. Þar eru starfsmenn hvattir til að veita innsýn í daglegt líf hjá stofnuninni. Ekki er gerð krafa um sérstakt tungumál á Instagram. Hafrannsóknastofnun er fjölþjóðlegur vinnustaður og það er vilji til að það endurspeglist.

Hér á eftir eru taldar upp samfélagsmiðlasíður stofnunarinnar:

https://www.facebook.com/hafrannsoknastofnun/
https://www.instagram.com/hafrannsoknastofnun/
https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA/videos

Málstofa

Málstofa Hafrannsóknastofnunar er mikilvægur liður í vísindastarfi stofnunarinnar en hún er vettvangur til að kynna almenningi rannsóknir starfsmanna og fá gesti til að halda erindi um sín hugarefni og/eða rannsóknir.

Vorið 2019 voru sex fyrirlestrar haldnir á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Ástþór Gíslason, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun fjallaði um stóra alþjóðlega rannsókn á lífríki miðsjávarlaga (MEESO) sem Hafrannsóknastofnun er aðili að, en verkefnið fékk styrk frá Evrópusambandinu til næstu fjögurra ára. Miðsjórinn er lítið rannsakaður en talið er að mögulegur lífmassi fiska þar sé gífurlegur eða allt að 100 sinnum meiri en heildarfiskafli heims.

Ragnar Jóhannsson sviðstjóri fiskeldissviðs fjallaði um samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunar og Maryland University við að þróa markaðshæfar aðferðir við kynhlutleysingu á eldisbleikju og eldislaxi. Með slíkum aðferðum væri hægt að koma í veg fyrir bæði snemmkynþroska og erfðablöndun við villta stofna, sem gæti haft mikla fjárhagslega þýðingu fyrir framhald bleikju- og laxeldis á Íslandi.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri Ferskvatnssviðs fjallaði um rannsóknir á stofnstærð bleikju og veiði í Mývatni en þær ná allt aftur til ársins 1986. Á þessum rúmlega 30 árum hafa orðið miklar breytingar á stofnstærð bleikju sem telja má að hafi hrunið tvisvar á tímabilinu, fyrst 1988 og síðan aftur 1997. Vísbendingar eru um að bleikjustofninn sé nú vaxandi eftir að beita þurfti talsverðum veiðitakmörkunum.

Björn Björnsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, fjallaði um vísindagrein sem hann fékk nýlega birta í Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Sciences. Björn og samstarfsmenn gerðu tilraun í Arnarfirði með svokallað hjarðeldi þar sem villtir þorskar voru fóðraðir reglubundið á ákveðnum fóðrunarstöðvum, en einnig báru þeir merki sem skráðu bæði dýpi og hitastig. Atferli þeirra var svo borið saman við villta þorska sem þurftu að afla sér fæðu sjálfir. Niðurstöðurnar bentu til þess að fóðraðir þorskar héldu sig í heitari sjó en villtu þorskarnir.

M. Dolores Pérez-Hernández (Lola), fyrrum haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, fjallaði um rannsóknir sínar á straumakerfi  við Svalbarða og í Norður-Íshafi sem hún vann við Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum. Hluti hlýsjávar Atlantshafs streymir í norður framhjá Íslandi og Svalbarða, inn í Norður-Íshafið, þar sem straumurinn sveigir til austurs og liggur meðfram landgrunni Evrópu og Rússlands. Í erindu sínu, fjallaði Lola um helstu eiginleika þessa straums og árstíðarbundinn breytileika hans.

Málstofa Hafrannsóknastofnunar haustið 2019 var með óvenjulegu sniði þar sem ekki var óskað eftir erindum vegna fyrirhugaðra flutninga í Fornubúðir í Hafnarfirði. Málstofa á að vera aðgengileg öllum og erindi eru tekin upp til að dreifing sé sem víðust. Ekki þótti viðeigandi að bjóða fyrirlesurum að bóka sig í því óvissuástandi sem flutningar skapa þar sem ekki væri öruggt að upptöku- og fjarfundarbúnaður yrði til staðar fyrst um sinn. Málstofur verða teknar upp að nýju þegar stofnunin er flutt í Fornubúðir í Hafnarfirði.

mynd tekin af Instagram Hafrannsóknastofnunar

Landsýn. Ljósm. tekin af Instagramsíðu Hafrannsóknastofnunar.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?