Aðalvík

kort

Hnit: 66°16,5'N 22°01,7W
Flatarmál: 40,9 m2
Meðaldýpi: <20  m
Mesta dýpi: 30 m

Aðalvík er stór vík norðan við Ísafjarðardjúp milli Riturs og Straumnes. Hún er um 8 km á breidd og rúmir 7 km á lengd frá mynni hennar inn að sendinni strönd. Hún er opin fyrir hafi til vestnorðvesturs. Dýpi í víkurmynninu er um 30 m en þar fyrir innan um 25 m inn undir miðja vík en þaðan af grynnkar ört til lands. Nokkrar ár hafa afrennsli í víkina og er svolítið undirlendi í kringum þær.

Litlar sjórannsóknir hafa farið fram í Aðalvík og má segja að aðeins ein rannsókn liggi fyrir sem gefi hugmynd um breytingar á hita, seltu og næringarefnum í víkinni. Ekki hafa verið mældir straumar í Aðalvík en vitað er að strandstraumur á þessu svæði liggur með landi til austurs.

Í Aðalvík á Hornströndum hafa ekki farið margar rannsóknir á lífríki. Þó hafa þar verið gerðar rannsóknir á sæbjúgum, kúfskel og svifþörungum með áherslu á eitraða svifþörunga. Víkin er breið en stutt og opin fyrir veðrum og því getur verið þar mjög brimasamt og lífríki því sennilega mjög sérhæft af þeim sökum.

Stofnstærðarmat sæbjúgna í Aðalvík 2008
Sæbjúgu (Holothuroidea) hafa öldum saman verið nýtt til manneldis og lyfjagerðar, einkum í Suðaustur-Asíu. Á síðastliðnum 50 árum hafa veiðar á sæbjúgum aukist verulega í kjölfar aukinnar eftirspurnar. Stjórnun veiða og skráning afla hefur hins vegar verið mjög ábótavant í Asíu sem hefur víða leitt til ofveiði og minnkunar á framboði. Vegna aukinnar eftirspurnar og minnkandi framboðs í Asíu hafa stærstu markaðslöndin sóst eftir nýjum áður ónýttum sæbjúgnategundum frá örðum heimsálfum eins og brimbút úr Norður Atlantshafi.

mynd af sæbjúgum

1. mynd. Sæbjúgað Brimbútur.

Brimbútur (Cucumaria frondosa) er stærsta sæbjúgnategundin sem finnst hér við land og sú eina sem er nýtt. Dýrin eru oftast brúnleit, gráleit eða dimmfjólublá að lit (1. mynd). Fullorðin dýr geta orðið allt að 50 cm að lengd en algengt er að stærstu dýr séu um 35 cm og er þeirri stærð yfirleitt náð við um 10 ára aldur. Erfitt er að lengdarmæla dýrin þar sem lögun þeirra getur verið mismunandi, en oftast eru þau sívöl og mjókka til endanna sem oft eru sveigðir upp á við. Við áreiti draga dýrin sig saman og verða nær hnöttótt.

Brimbútur heldur sig mest kyrr á sama stað og hefur 5 tvöfaldar raðir appelsínugulra sogfóta á dökkum sívölum búknum, sem hann notar til að festa sig við botninn. Hann getur einnig notað þær til að færa sig úr stað. Brimbútur er síari og hefur 10 fíngerða, slímkennda og marggreinótta munnarma sem hann notar við fæðuöflun. Með þeim grípur hann svif, egg, lirfur og lífrænar agnir sem reka í sjónum. Dýrin eru sérkynja, hafa ytri frjóvgun og vaxa hægt.

Við Ísland finnst brimbútur allt í kringum land en þó síst við Suðurströndina. Hann hefur aðallega veiðst á hörðum botni á 20–30 m dýpi, en þó einnig á sand- og malarbotni og er útbreiðslan oftast blettótt.  

Í apríl 2008 fóru fram rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á sæbjúga í Aðalvík með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð með nýtingu í huga. Sæbjúgu úr afla voru lengdarmæld og vigtuð. Til rannsóknanna var notaður sæbjúgnaveiðibátur útbúinn sæbjúgnaplógi (2. mynd).

mynd af sæbjúgnaplógi

2. mynd. Sæbjúgnaplógur (mynd: Guðrún Þórarinsdóttir).

Í Aðalvík vor tekin 24 tog á 5,5 ferkílómetra svæði (3. mynd) og var lífþyngdin að meðaltali 0,5 kg/m2. Stofnstærð var áætluð um 2500 tonn á svæðinu. Meðallengdin í afla var 190 mm og lengdardreifingin 100-350 mm (4. mynd). Meðalþyngd dýranna var 290 gr og þar af möttulþyngdin um 160 gr.

mynd af veiðisvæði

3. mynd. Veiðisvæði brimbúts í Aðalvík.

lengdardreifingarmynd

4. mynd. Lengdardreifing brimbúts í Aðalvík.

Heimildir: Gudrún G. Þórarindóttir, og Karl Gunnarsson 2010. Sæbjúgað brimbútur við strendur Íslands.   Náttúrufræðingurinn, 80, bls 27-32.

Svifþörungar á kúfiskmiðum - Aðalvík
Vegna fyrirhugaðs útflutnings á kúfiski til Bandaríkjanna árið 1994, voru gerðar viðamiklar rannsóknir á veiðisvæðum kúfisks samkvæmt kröfum bandarískra yfirvalda. Meðal rannsóknaþátta voru rannsóknir á plöntusvifi og umhverfi þeirra.

stöðvarkort

1. mynd. Stöðvakort sem sýnir söfnunarstaði í Önundarfirði (ÖN), Aðalvík (AL) og Fljótavík (FL).

Frá 28. mars til októberloka árið 1994 var yfirborðssýnum safnað vikulega á þremur stöðum þ.e. í Önundarfirði, í Aðalvík og í Fljótavík (1. mynd). Háfsýni (20µm) og talningarsýni vegna svifþörunga voru tekin úr yfirborði sjávar. Einnig var mæld blaðgræna svifþörunga sem mælikvarði á magn þeirra, og selta, hiti og næringarefni í yfirborði. Eitt af markmiðum rannsóknanna var að kanna tilvist svifþörunga sem hugsanlega geta framleitt eiturefnin PSP (Paralytic shellfish poison) sem er hættulegt taugaeitur og skoruþörungar af ættinni Alexandrium geta framleitt, DSP (Diarrheic shellfish poison) sem veldur magaeitrun og skoruþörungar af ættinni Dinophysis geta framleitt og að lokum ASP (Amnesic shellfish poison) sem er einnig taugaeitur og getur m.a. valdið minnisleysi en kísilþörungar af ættinni Pseudonitzschia geta framleitt þetta eitur. Mánaðarlega var safnað sýnum úr kúfiskafla til að kanna hvort þessi eiturefni væru mælanleg í skelfiski en mælingin var framkvæmd af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hér verður greint frá þætti svifþörunga í Aðalvík í rannsókninni en þar er brimasemi mikil.

Í lok mars var lítill gróður í Aðalvík en gróður fór hratt vaxandi í apríl og vorhámark svifþörunga varð í lok apríl en þá varð magn blaðgrænu meira en 10 mg m-3. (2. mynd). Að loknu vorhámarki féll magn blaðgrænu og í lok maí var styrkur hennar lár (<1 mg m-3). Í júní fór blaðgræna vaxandi á nýjan leik og var á bilinu 1-3 mg m-3 fram yfir miðjan september en minnkaði hratt úr því fram á haustið.

blaðgrænumynd

2. mynd. Ársferill blaðgrænu í Aðalvík.

Algengustu svifþörungategundir í vorgróðrinum voru kísilþörungarnir Thalassiosira gravida, Th. nordenskioeldii og Chaetoceros socialis en einnig var Phaeocystis pouchetii (Prymnesiophyceae) algengur. Í þeim gróðurtoppum sem fylgdu er leið á sumarið bar fyrst mest á Leptocylindrus minimus, síðan Skeletonema costatum og að lokum Pseudonitzschia pseudodelicatissima, allt kísilþörungategundir. Kísilþörungar voru ríkjandi hópur svifþörunga frá vori til hausts (3. mynd). Aðrir hópar náðu samtals mest að verða 15% af heildar frumufjölda svifþörunga.

mynd af fjölda kísilþörunga

3. mynd. Fjöldi kísilþörunga (frumur í lítra) frá vori til hausts í Aðalvík árið 1994.

Svifþörungategundir sem geta myndað eiturefnin PSP, DSP og ASP fundust í Aðalvík. Alexandrium spp (A. tamarense og A. ostenfeldii) sem getur valdið PSP eitrun í skelfiski fannst fyrst í júní 1994 en var síðan viðvarandi frá júní til júlí og fannst síðan einu sinni seint í ágúst (4. mynd). Frá 15. júní til júníloka fundust fleiri en 100 frumur í lítra af sjó en flestar frumur fundust í fyrstu viku júlí 760 frumur í lítra af sjó. Þetta er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru í dag (2014) varðandi hættu á PSP eitrun í skelfiski af völdum Alexandrium tegunda. Mælingar á PSP í kúfiski í rannsókninni 1994 voru alltaf undir hættumörkum.

mynd af fjölda eiturþörunga í hverjum lítra

4. mynd. Fjöldi (frumur í lítra) Alexandrium tegunda (svartar súlur) og fjöldi Dinophysis tegunda (gráar súlur) í Aðalvík árið 1994.

Dinophysis tegundir (aðallega D. acuminata en einnig D. norvegica og D. rotundata) fundust í Aðalvík frá byrjun júlí 1994 til nóvember með mestan fjölda í lok júlí 620 frumur í lítra en einnig var nokkuð af þeim í ágúst, september og október (4. mynd). Fjöldi Dinophysis tegunda fór einu sinni yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru á árinu 2014.

Pseudonitzschia pseudodelicatissima (kísilþörungur) fannst í Aðalvík frá júní 1994 til loka október sama ár. Mestur fjöldi fannst frá því í lok júlí til ágústloka en þá var fjöldi þeirra frá hundruðum þúsunda fruma í lítra upp í 6,3 milljónir frumur í lítra af sjó sem er langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru dag (2014) varðandi hættu á ASP eitrun í skel.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Stofnstærðarmat kúfskelja í Aðalvík 1994
Kúfskel (Arctica islandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í bontlaginu með hjálp fótarins. Kúflskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.     

Mynd af kúfskeljum

1. mynd. Kúfskel.

Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar. Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd).

mynd af skelplógi

2. mynd. Vatnsþrýstiplógur.

Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

kort af rannsóknasvæði

3. mynd. Rannsóknasvæðið í Aðalvík. Punktarnir tákna staðsetningu toga og stærð þeirra lífþyngd (0-4,3 kg m-2).

mynd af lengdardreifingu

5. mynd. Lengdardreifing kúfskelja í afla.

Heimildir
Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.
Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland. Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 
G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters. J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?