Urriði

Urriði (Salmo trutta L.) hefur náttúrulega útbreiðslu í Evrópu, Norður-Afríku og Norðvestur-Asíu. Urriða er að finna mun víðar utan hans náttúrulegu útbreiðslusvæði og er það tilkomið fyrst og fremst vegna sleppinga. Urriði getur bæði lifað í fersku vatni og sjó en hrygnir ávallt í fersku vatni. Urriði sem gengið hefur í sjó nefnist sjóbirtingur (sjóurriði, birtingur). Sjóbirtingur hefur náttúrulega útbreiðslu við strendur Vestur-Evrópu frá Biskaiflóa og norður til Hvítahafs. Staðbundnir stofnar urriða lifa allt sitt líf í ferskvatni og ganga aldrei til sjávar.

Urriði nam land frá sjó í ám í Norður-Evrópu fljótlega eftir lok síðustu ísaldar (fyrir u.þ.b. 8 ‒10.000 árum). Þá var sjávarstaða víðast hvar mun hærri en nú er svo sjógenginn fiskur hefur komist mun lengra inn í land. Þannig er talið að flestir stofnar staðbundinna urriðastofna séu tilkomnir frá sjóbirting sem lokaðist af inn í landi þegar sjávarstaða lækkaði og fossar urðu ófiskgengir. Rannsóknir hafa sýnt að sá urriði sem nam fyrst land í Evrópu tilheyrði sérstöku stórvöxnu seinkynþroska afbrigði, sem var frábrugðið urriðaafbrigðum sem síðar komu. Slíka frumstofna er nú að finna hreina í aðeins fáum fjallavötnum í heiminum. Urriðinn í Veiðivötnum er af þessari frumgerð.

Urriða er að finna í ám og vötnum í öllum landshlutum. Sjóbirtingur finnst víða í ám þar sem fiskgengt er frá sjó. Hann er algengastur í ám um sunnan- og vestanvert landið, þar sem gætir hlýsjávar. Í Vestur-Skaftafellssýslu er hann víðast ríkjandi tegund í ám, sem er sérstætt, því í flestum ám eru bleikja eða lax ríkjandi tegundir. Helstu sjóbirtingsárnar á Vesturlandi eru á Snæfellsnesi, á Norðurlandi í Héraðsvötnum og Litluá, en á Austurlandi er hann mjög strjáll. Útbreiðsla sjóbirtings hefur verið að aukast síðustu áratugina og er það sennilega tengt hlýnandi veðurfari. Urriði er gjarna algengur í grunnum láglendisvötnum, lifir þar víða í sambýli við bleikju. Hann er einnig að finna í hálendisvötnum. Veiðivötn á Landmannaafrétti voru til skamms tíma eingöngu setin urriða af laxfiskum, en bleikja hefur nú borist þar í nokkur vötn. Hrein urriðavötn voru einnig í Skriðdal og á Mosfellsheiði. Útbreiðslusaga urriða er lítt þekkt hér á landi en líklega er hann á sumum aflokuðum svæðum tilkominn vegna sleppinga. Í gangi eru erfðarannsóknir sem varpað geta frekara ljósi á uppruna og skyldleika íslenskra urriðastofna.

Lífshættir
Urriði hrygnir í okóber – nóvember og kýs hann að jafnaði rennandi vatn til þess. Dæmi eru um að urriði hrygni í stöðuvötnum þá nýtir hann sér strauminn í lindarstreymi til hrygningar. Kjörskilyrði til hrygningar eru ár og lækir þar sem straumur er jafn og í botni er gróf möl með góðu gegnumstreymi. Við hrygningu grefur urriðahrygnan hrognin í mölina og þar liggja þau yfir veturinn. Að vori klekjast hrognin og út koma kviðpokaseiði sem halda sig áfram í mölinni og lifa á næringarforða kviðpokans. Í maí‒júlí, leita seiðin upp úr mölinni og byrja fljótlega að taka til sín fæðu.Reynist fyrsta fæðunámið seiðunum oft erfitt. Fæðan þarf að vera nægileg og af réttri stærð til þess að þau geti náð henni. Á þessum tíma lífsferilsins verða oft mikil afföll þar sem samkeppni um fæðu og búsvæði getur verið hörð. Hvert seiði helgar sér svæði sem það ver fyrir öðrum seiðum og seiði sem ekki ná að helga sér svæði verða undir í lífsbaráttunni. Fyrst um sinn halda seiðin sig gjarna á smágrýttum svæðum nálægt hrygningarstöðvunum.

Eftir klak dvelja seiðin 2‒3 ár í ánni og ná um 10 – 18 cm lengd. Eftir því sem seiðin stækka leita þau á grófgrýttari botn eða á svæði með botngróðri. Stærri seiði eru ekki eins bundin við botn og sum færa sig í hylji eða á staumlítil svæði í ám, lækjum eða í stöðuvötn. Þar halda seiðin sig þar til þau ná kynþroska. Tími sem líður fram að kynþroska er mislangur og fer eftir aðstæðum, t.d. fæðuframboði og vatnshita á uppeldissvæðum.

Smáir þverlækir stærri áa eru oft þýðingarmikil uppeldissvæði fyrir urriðaseiði sem leita þangað úr aðalánni. Urriðaseiði sem upprunnin eru úr hrygningu í ám eða lækjum sem renna í eða úr stöðuvötnum geta tekið að ganga í vötnin strax á fyrsta ári eða eftir nokkur ár. Dvalartími og stærð við göngu í vötnin fer eftir uppeldisaðstæðum í ánum. Hjá sjóbirtingi eru seiðin hins vegar 2‒5 ár í ánum áður en þau ganga til sjávar og stærðin er þá frá 10 ‒ 35 cm. Sjóbirtingseiðin ganga í sjó að vori (maí ‒ júní) og síðan aftur í ár síðsumars og að hausti (ágúst‒nóvember), eftir nokkurra mánaða dvöl í sjó og eru seiðin þá enn ókynþroska.

Birtingarnir dvelja að jafnaði í fersku vatni yfir veturinn en ganga á ný til sjávar næsta vor. Þannig eru endurteknar göngur á milli ferskvatns og sjávar svo lengi sem hver einstaklingur lifir. Yfirvetrun (vetrardvöl) í fersku vatni er háð aðstæðum. Fæstir sjóbirtingar verða kynþroska fyrr en eftir tvö sumur eða fleiri í sjó. Kynþroska sjóbirtingar eru fyrr á ferðinni úr sjó en ókynþroska og geta þeir verið að ganga allt frá lokum júní. Á suðlægari slóðum, þar sem sjávarhiti er hærri en hér við land, er a.m.k. hluti stofnsins í sjó eða hálfsöltu vatni að vetri.

Fæða
Fyrsta fæða smáseiða er mest smáar rykmýslirfur og í rennandi vatni einnig bitmýslirfur. Fæða seiðanna verður fjölbreyttari með aukinni stærð og stærri fæðudýr verðafyrir valinu, s.s. vorflugulirfur, vatnabobbar, ýmsar skordýrapúpur, flugur, hornsíli og stundum ýmis landræn smádýr sem falla í vatnið. Fæða urriða sem kominn er af seiðastigi getur verið fjölbreytt. Í Laxá í Mývatnssveit eru bitmýslirfur aðalfæðan en þar eiga urriðar til að taka andarunga og jafnvel hagamýs. Í hálendisvötnum, s.s. Veiðivötnum, er skötuormur, sem er stórvaxið botnlægt krabbadýr, vinsæl fæða. Urriði étur hins vegar sjaldan sviflæg krabbadýr í íslenskum vötnum. Í sumum vötnum, eins og Þingvallavatni, er murta helsta fæða stálpaðra urriða. Murtan er orkurík fæða sem urriðinn vex vel af og er ein helsta skýringin á því hve urriðinn í Þingvallavatni verður stórvaxinn.

Í sjónum eru marflær og einkanlega sandsíli mikilvæg fæða sjóbirtinga. Aukið fæðuframboð og stærri fæðudýr gera það að verkum að vaxtarhraðinn eykst umtalsvert í sjónum. Sjóbirtingur fer sjaldan í ætisleit fjær heimaánni en 100 km. Hann heldur sig mest nálægt ströndinni og á það til að vera í æti í og við árósa og fylgir þá gjarna sjávarföllum inn og út ósana.

Stofnar
Merkingar á urriðum hérlendis sem erlendis benda til þess að ratvísi kynþroska urriða sé góð. Góð ratvísi er ein af undirstöðum myndunar sérstakra stofna hjá laxfiskum og virðist engu síðri hjá urriða en hjá laxi. Stofnarnir mótast af umhverfisaðstæðum á hverjum stað. Urriðar af mismunandi stofnum geta verið ólíkir í útliti einstaklingstærð og lífsháttum.

Sértækar rannsóknir á urriða hér á landi hafa einkum verið á sunnanverðu landinu en einnig á vatnasvæði Laxár í Aðaldal. Sjóbirtingsrannsóknir hafa farið fram í ám í Skaftárhreppi nær samfellt frá árinu 1983. Síðari ár hefur mesta áhersla verið lögð á Grenlæk og er hann nú lykilá í vöktun á sjóbirtingi. Rannsóknir þessar hafa leitt í ljós að sjóbirtingar á svæðinu eru óvenju stórvaxnir. Algeng stærð á stangveiddum fiski er 1‒3 kg og þar hafa veiðst allmargir sjóbirtingar sem vegið hafa yfir 10 kg. Sjóbirtingur er einnig stórvaxinn í fleiri ám, s.s. Litluá í Kelduhverfi. Hreistursrannsóknir af göngufiski í Skaftárhreppi hafa sýnt að flestir eru sjóbirtingarnir 3‒4 ára og 15‒30 cm langir þegar þeir ganga til sjávar í fyrsta sinn.

Algengast er að sjóbirtingurinn dvelji 3‒4 sumur í sjó áður en hann veiðist. Á seiðastigi í ánum er vöxturinn um 5 ‒ 7 cm á ári en í sjónum um 11 cm en þó dregur úr vexti við kynþroska. Flestir sjóbirtingar á Skaftársvæðinu verða kynþroska eftir tvö til fjögur sumur í sjó og eru þá orðnir 50 – 60 cm að lengd (1,5 – 2,5 kg). Sjóbirtingur er að jafnaði langlífari en lax og getur hrygnt nokkrum sinnum á lífsleiðinni. Sama á við um staðbundinn urriða. Hrygnur hrygna oftar og lifa lengur en hængar.

Í Veiðivötnum, sem er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti, hefur Hafrannsóknastofnun (áður Veiðimálastofnun) gert árlegar vöktunarrannsóknir á fiski frá árinu 1985. Vötnin eru á vatnsríku, eldvirku og frjósömu lindarsvæði. Urriði og hornsíli, eru í vötnunum frá náttúrunnar hendi. Bleikja, komst þangað af sjálfsdáðum upp úr 1970 eftir sleppingar í nálæg vötn. Vötnin hafa lengi verið nytjuð með blandaðri stanga- og netaveiði. Fiskar í Veiðivötnum búa við harðbýl náttúrufarsleg skilyrði, vetur eru kaldir og sumur stutt. Óvíða eru góð hrygningarbúsvæði fyrir urriða þar sem er möl og vatnsrennsli.

Urriðar í Veiðivötnum eru síðkynþroska, verða flestir kynþroska við 7–9 ára aldur, þá um 45 cm langir og um 1,3–1,5 kg að þyngd. Vaxtarhraði og kynþroskastærð er að hluta erfðabundnir eiginleikar, en góður vöxtur urriðanna er líklega vegna ríkulegs fæðuframboðs. Fæða urriðanna í Veiðivötnum er aðallega smádýr sem tekin eru af botni.Vatnabobbi er lang algengasta fæðan en skötuormur er einnig mikilvæg fæða sem og hornsíli og lirfur rykmýs og vorflugna. Bleikju fer fjölgandi í mörgum þeim vötnum sem hún hefur borist í. Í þessum vötnum hefur urriðastofninn hopað. Miklar sveiflur koma fram í afla urriða en veiði á flatareiningu er svipuð og í frjósömum láglendisvötnum hérlendis.

Myndband sýnir urriða synda í gegnum teljara í Úlfarsá.

Uppfært 27. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?