Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður 1998 og var Hafrannsóknastofnun falið að annast rekstur hans með þríhliða samningi utanríkisráðuneytisins og Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Verkefni ársins 2019 voru margvísleg og starfsemi Sjávarútvegsskólans hefur vaxið frá stofnun bæði hvað varðar fjölda nemenda sem sækja hið árlega sex mánaða þjálfunarnám og einnig hafa verkefni í samstarfslöndunum aukist ásamt þátttöku í ráðstefnum og vinnufundum. Frá árinu 1998 hafa tæplega 400 sérfræðingar útskrifast úr þjálfunarnáminu og um 1200 manns tekið þátt í námskeiðum og vinnustofum í samstarfslöndum Sjávarútvegsskólans. Árlega veitir skólinn styrki til framhaldsnáms hér á landi til fyrrum nemenda sex mánaða þjálfunarnámsins og hafa um 36 styrkir verið veittir, 21 til doktorsnáms og 15 í meistarnáms (MSc).
Starfsemi Sjávarútvegsskólans byggir á samstarfi við lykilstofnanir hér á landi. Formlegir samstarfsaðilar eru, fyrir utan Hafrannsóknastofnun, Matís, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og fyrirtæki í sjávarútvegi (iðnaðurinn), en þessir aðilar hafa átt fulltrúa í stjórn skólans ásamt utanríkisráðuneytinu og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Til viðbótar hefur Sjávarútvegsskólinn unnið náið með Hólaskóla í þjálfun á sviði fiskeldis.
Eitt af leiðarsljósum skólans er skuldbinding um að vinna að tveimur verkefnum sem tengjast framkvæmd á 14. markmiði heimsmarkmiðanna. Annars vegar skuldbindur skólinn sig til að vinna að bættri nýtingu á lönduðum afla í fátækari strandríkjum Afríku, og hins vegar að aðstoða smáeyþróunarríki (SIDS lönd) til að nýta sér betur möguleika bláa hagkerfisins (blue growth intitiative).
Starfsemin 2019 hefur verið í höndum sex starfsmanna skólans; Tuma Tómassonar, Þórs Ásgeirssonar, Mary Frances Davidson, Julie Ingham, Stefáns Úlfarssonar og Beötu Wawiernia (4,8 – 5,2 stöðugildi). Fagþjálfunin er skipulögð af námslínustjórum frá samstarfsstofnunum.
Námslínustjórar eru:
Jónas Jónasson (Hafrannsóknastofnun) - Fiskifræðilína.
Daði Már Kristófersson (HÍ) og Ögmundur Knútsson (HA) - Fisveiðistjórnunarlína.
Margeir Gissurarson (Matís) - Gæðastjórnun í fiskvinnslu.
Helgi Thorarensen og David Banheim (Háskólinn á Hólum) - Fiskeldislína.
Sex mánaða þjálfunarnám
Nemendur hefja sex mánaða þjálfunarnámið á haustmánuðum og ljúka seinnipart vetrar. Þann 7. mars útskrifaðist 21. hópur Sjávarútvegsskólans, alls 24 nemendur frá 15 löndum. Hópurinn var á þremur sérlínum: Gæðalínu (7), Fiskifræðilínu (8) og Fiskveiðistjórnunarlínu (9) og er sá stærsti frá upphafi sem lokið hefur sex mánaða þjálfunarnáminu.
Í byrjun september hófu 23 nemendur þjálfun og var kynjahlutfallið óvenju jafnt eða 12 konur og 11 karlar. Í fyrsta sinn eru nemendur á öllum fjórum sérfræðilínum; sex á Fiskveiðistjórnunalínu, sjö á Gæðastjórnun í fiskiðnaði, sex á Fiskeldislínu og fjórir á Fiskifræðilínu. Tekin var sú ákvörðun að bjóða upp á þjálfunarnám á öllum fjórum sérfræðilínum skólans til að auka stöðuleika í samstarfinu við samstarfsaðilana hér á landi. Kostnaður er töluvert hærri og vonandi verður það til að auka gæði þjálfunarnámsins í framtíðinni. Gestafyrirlesari að þessu sinni var Dr. Nelly Isyagi frá Uganda. Hún hefur víðtæka reynslu í stefnumótun og framkvæmd verkefna í fiskeldi og miðlaði hún af reynslu sinni í 5 erindum ásamt því að ferðast með norður í land í okkar árlegri ferð þangað.
Frá heimsókn í Tilraunaeldisstöðina að Stað við Grindavík.
Skólastyrkir
Níu aðila þáðu skólastyrkir á árinu, þrír til meistarnáms og sex til doktorsnáms. Við úthlutun styrkjanna er leitast við að halda áfram að styðja uppbyggingu þekkingar í samstarfsstofnunum og eru styrkirnir að hluta til háðir því að viðkomandi styrkþegi geri rannsóknir sínar í heimalandi hjá þeirri stofnun sem viðkomandi vinnur hjá.
Stutt námskeið og vinnustofur
Síðustu ár hefur Sjávarútvegsskólinn unnið í auknum mæli að afmörkuðum verkefnum í samstarfslöndum sínum. Slík verkefni eru einkum stutt námskeið og vinnustofur. Ein af meginreglum varðandi slíka starfsemi er að fyrrum nemendur taki þátt í skipulagningu og framkvæmd því þannig tekst að halda tengslum við fyrrum nemendur, fylgjast með þeirra framgangi og vekja athygli á þeirra vinnu og framlagi til þróunar sjávarúvegs. 2019 voru haldin tvö námskeið og ein vinnustofa.
Sjávarútvegsskólinn hefur alla tíð átt mjög gott samstarf við fiskiðnaðinn á Íslandi. Á árinu hófst undirbúningur að námskeiði í Nha Trang í Vietnam með Marel um gæði í fiskiðnaði og þátt vinnslutækni í að auka afköst og gæði. Verkefnið er að hluta til unnið með stuðningi sjóðs sem utanríkisráðuneytið hefur stofnað til að hvetja fyrirtæki í sjávarútvegi til að vinna að heimsmarkmiðunum í þróunarlöndum.
Í tengslum við skuldbindingu Sjávarútvegsskólans í stuðningi við Smáþróunareyríki (Small Island Development States – SIDS) í bláa lífhagkerfi (blue bioeconomy) hóf Sjávarútvegsskólinn undirbúning að námskeiði um virðiskeðjur í sjávarútvegi á Grænhöfðaeyjum í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Grænhöfðaeyjum.
Ráðstefnur
Síðastliðin 12 ár hefur Sjávarútvegsskólinn komið beint eða óbeint að skipulagi og/eða framkvæmd ráðstefna. Starfsfólk skólans hefur flutt erindi um þjálfun í sjávarútvegi í þróunarlöndum en einnig hefur skólinn stutt fyrrum nemendur með fjármagni til að taka þátt í alþjóðlegum ráðstefnum og fundum þar sem þeir kynna rannsóknaverkefnin sín. Sjávarútvegsskólinn kom að tveimur ráðstefnum 2019.
Önnur verkefni
- Sjávarútvegsskólinn tók þátt í rannsóknarverkefni sem stjórnað var af sérfræðingahópi um rannsóknir á þróunaraðstoð (EBA). Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í skýrslu: Fishing Aid: Mapping and Synthesising Evidence Un Support of SDG 14 Fisheries Target.
- Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur unnið að leiðbeiningum til að efla stjórnun á smábátaveiðum í þróunarlöndum. Leitað var til Sjávarútvegsskólans um að finna leiðir til að koma leiðbeiningunum í framkvæmd.
- Sjávarútvegsskólinn tók þátt í rannsókn til að bæta eldi á Clarias gariepinus (African catfish) í samstarfi við Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og Ibadamháskóla. Rannsókn var hönnuð og framkvæmd í Nígeríu og fjórir nemendur komu í sex mánaða þjálfunarnámið til að vinna úr niðurstöðum fiskeldisrannsóknarinnar.
- 2019 hélt Sjávarútvegsskólinn áfram að vinna með utanríkisráðuneytinu í umbótum á reykingu fisks í Sierra Lione og í Líberíu með þróun og uppbyggingu á reykofnum og þjálfun fólks í notkun þeirra.
Breytingar hjá Sjávarútvegsskólanum
2019 markar endalok samstarfs Íslands og Háskóla Sameinuðu þjóðanna um rekstur og framkvæmd verkefna um fjóra skóla: Sjávarútvegsskólann, Jarðhitaskólann, Landgræðsluskólann og Jafnréttisskólann. Síðari hluta ársins sótti Ísland til Menningarmálastofunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um að taka að sér að vera yfirstofnun þessar fjögurra skóla sem starfræktir hafa verið undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna undanfarna áratugi. Í desember komst á samningur milli utanríkisráðuneytsins og UNESCO um stofnun UNESCO miðstöðvar hér á landi sem á að hafa samræmingar- og eftirlitshlutverk með starfsemi skólanna. Þann 9. desember var haldinn síðasti stjórnarfundur Sjávarútvegsskólans og mun hlutverk stjórnar færast yfir á stjórn UNESCO miðstöðvarinnar og nýs fags- og samstarfsráðs skólans.
Þann 1. ágúst lét Tumi Tómasson af störfum sem forstöðumaður Sjávarútvegsskólans. Tumi Tómasson hefur gengt því starfi frá upphafi og hefur mótað sex mánaða þjálfunarnámið frá upphafi ásamt því að koma fram fyrir hönd Háskóla Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytisins á alþjóðlegum ráðstefnum og vinnufundum. Þór Ásgeirsson, sem gengt hefur starfi aðstoðarforstöðumanns frá 2000 tók við af Tuma eftir ráðningarferli sem stýrt var af stjórn skólans.
Tumi Tómasson.