Framandi sjávarlífverur

Almennt um framandi tegundir sjávarlífvera 

Flutningur framandi sjávarlífvera á milli hafsvæða er vaxandi vandamál um allan heim og hefur aukist gífurlega á síðustu áratugum. Lítill hluti þessara lífvera verður ágengur og veldur skaða en ýmsar tegundir geta haft veruleg og óafturkræf áhrif á það lífríki sem fyrir er á svæðinu. Skaðinn getur verið allt frá því að vera smávægilegur og upp í það að ógna og skemma fjölbreytileika svæða og valda miklu fjárhagslegu tjóni.

Mikla aukningu í fjölda tegunda framandi sjávarlífvera í Evrópu á síðustu árum má rekja til aukinnar skipaumferðar og hlýnunar sjávar. Þessar lífverur tilheyra flestar hópum krabbadýra, samloka, botnþörunga, svifþörunga, fiska, burstaorma og möttuldýra. Helstu flutningsleiðir framandi tegunda á milli hafsvæða eru með kjölfestuvatni skipa, sem ásætur á skipsskrokkum, með innflutningi eldisdýra en einnig með náttúrulegum leiðum eins og straumum. Flestar lífverurnar hafa borist til Evrópu úr Kyrrahafi.

Á undanförnum árum hefur fjöldi framandi sjávarlífvera við Ísland aukist mikið. Í flestum tilfellum eru þetta sömu tegundir og hafa fundist í Evrópu. Aðeins fáar af tegundunum er hægt að kalla mögulega ágengar eða skaðlegar, en í því sambandi mætti þó nefna grjótkrabba (Cancer irroratus), sandrækju (Crangon crangon), flundru (Platichthys flesus) og sagþang (Fucus serratus). Líklegast er að megnið af framandi sjávartegundum hafi borist til landsins með kjölfestuvatni skipa. Flestar þessara tegunda fundust fyrst við Suðvesturland sem skýra má með tíðum ferðum flutningaskipa á svæðið, hæsta hitastigi í sjó við landið og því að líklega er þetta það svæði við landið sem mest hefur verið rannsakað. 

Erfitt er að verjast ágengum tegundum í sjó eftir að þær hafa náð fótfestu og eru forvarnir því besta ráðið. Hagsmunir Íslendinga af verndun lífríkis sjávar eru miklir. Með hliðsjón af samningum um líffræðilega fjölbreytni og stuðlan að verndum lífríkis sjávar var samþykkt reglugerð um bann við losun ómeðhöndlaðs kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu Íslands árið 2010.

Náttúrustofa Suðvesturlands sér um skráningu og kortlagningu á landnámi framandi sjávarlífvera við Ísland og stundar rannsóknir á útbreiðslu og líffræði nokkurra þeirra (http://www.natturustofa.is/framandi_sjavarlifverur.html). Jafnframt hefur samstarfshópur með fulltrúum Matvælastofnunar,Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar gefið út viðbragðsáætlun vegna framandi villtra dýra við Ísland (Áætlun um viðbrögð þegar framandi villt dýr finnst). Hér er átt við hryggdýr af tegund sem ekki er hluti af villta íslenska dýrastofninum, en gildir ekki um hvali og fugla.

Helsti gagnagrunnur um framandi tegundir í sjó í er AquaNIS þar er að finna upplýsingar um framandi tegundir í sjó, ísöltum sjó og strandsjó. Í gagnagrunninum eru upplýsingar um framandi tegundir í Evrópu og nærliggjandi svæðum. Um skráningu í grunninn sjá starfsmenn Náttúrustofu Suðvesturlands. Samantekt á skilgreiningum og hugtökum tengdum þessu fræðasviði má sjá á vef Náttúrustofu s-Suðvesturlands (sjá hér).