Útbreiðsla og uppruni loðnuungviðis

Hlýnun í lofthjúp jarðar vegna brennslu mannskepnunnar á jarðefnaeldsneyti er staðreynd. Hvernig og hvenær þessi hækkun lofthita skilar sér í hækkun á hitastigi sjávar liggur ekki ljóst fyrir, en fyrr eða síðar mun hún gera það með einum eða öðrum hætti ef framhald verður á.

Síðustu tvo áratugi eða svo hefur hitastig sjávar við Ísland farið hækkandi. Fyrst við Suður- og Vesturland en síðan á öðrum hafsvæðum. Hlýnunin hefur þegar haft margvísleg áhrif á lífríki sjávar. Frá árinu 1996 hefur orðið vart við á þriðja tug fisktegunda sem ekki hafa fundist hér við land áður svo vitað sé. Þar ber hæst gríðarleg aukning í makrílgengd inn á íslenska hafsvæðið. Þó eru ekki allir tilbúnir að skrifa upp á hlýnunina sem orsakavald heldur benda á stækkandi stofn í Norðaustur Atlantshafi og skort á æti á hefðbundnum útbreiðslusvæðum. Þá hefur útbreiðsla stofna eins og ýsu og skötusels teygt sig verulega norður á bóginn á þessu tímabili. Almennt er talið að þessar umhverfisbreytingar hafi haft jákvæð áhrif á lífríkið en þó er það ekki einhlítt.

rannsóknir á loðnuungviði

Loðnan, sem er kaldsjávartegund, hefur stundum verið nefnd „kanarífuglinn í námunni“ vegna þess hversu viðkvæm hún er fyrir hitabreytingum. Hún er dýrmætur veiðistofn við Ísland og þá er hún lykiltegund í vistkerfi sjávar við landið og mikilvægasta fæða margra nytjastofna hér við land, t.d. þorsks. Undanfarna tvo áratugi hafa orðið umtalsverðar breytingar í útbreiðslu og gönguhegðun loðnu. Meðal annars hafa fæðugöngur færst vestar og norðar auk þess sem loðna á hrygningargöngu hefur undanfarin ár gengið seint og illa austur og suður fyrir land til hrygningar á hefðbundnum svæðum.

Þessar breytingar urðu kveikjan að rannsóknum sem hófust vorið 2017. Markmiðið er að safna sýnum og kortleggja útbreiðslu loðnuungviðis (lirfa og seiða) allt í kringum landið. Ekki var farinn sérstakur söfnunarleiðangur en sýnum var safnað til hliðar við rannsóknir í vorleiðangri, makrílleiðangri og loðnuleit að hausti en í þessum leiðöngrum er farið yfir væntanlegt útbreiðslusvæði loðnuungviðis. Að lokinni sýnasöfnun er ætlunin að aldursgreina loðnuungviðið og með hjálp strauma- og reklíkans, sem hannað hefur verið á undanförnum árum við Háskóla Íslands, rekja uppruna loðnuungviðisins. Loðnan hrygnir á malar- eða sandbotni og loða eggin við botninn þar til lirfan brýst úr egginu. Þannig er vonast til að niðurstöðurnar gefi vísbendingar um hvar helstu hrygningarsvæði loðnunnar er að finna og hvort breytingar hafi orðið á þeim á undanförnum árum, m.a. hvort loðnan hrygni í auknum mæli norðan lands.

Sýnum er safnað með svokölluðum MIK-háfi sem smíðaður var sérstaklega til verksins eftir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins, stálhringur, 2 m í þvermál, og í hann er fest 13 m langt smáriðið net (2 mm möskvi). Háfurinn er dreginn á eftir skipinu á 3 sjómílna ferð í V-laga ferli, þ.e. frá yfirborði niður á 100 m dýpi og upp í yfirborð á ný og tekur ferlið u.þ.b. 30 mínútur. Neðst á netinu er safnari sem hægt er að losa frá og strax að loknu togi er farið í gegnum sýnið og allt fiskungviði tínt úr og geymt í etanóli.

Á hafsvæðinu kringum Ísland skiptast á hlýskeið og kuldaskeið, mislöng og misafgerandi. Hvort hlýnunin síðustu áratugi er afleiðing af þessum náttúrulegu sveiflum eða hvort hlýnun andrúmsloftsins sé farin að setja mark sitt á hitastig sjávar er ekki vitað með vissu. Árin 2016 og 2017 lækkaði hitastig sjávar t.d. á ný og selta sjávar jafnframt. Mikilvægt er að fylgst sé náið með áhrifum umhverfisbreytinga á jafn vistfræðilega mikilvæga tegund og loðnu.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?