Patreksfjörður

kort

Hnit - 65°35´N 24°01´W
Flatarmál - 66 km2
Meðaldýpi - 20-50m
Mesta dýpi - 72 m

Patreksfjörður er syðstur þeirra fjarða á Vestfjörðum sem snúa til norðvesturs. Utan við fjörðinn er Patreksfjarðarflói, talsvert grunn þar sem botndýpi er minna en 40 m. Það er um 10 km breitt við Tálkna en utar um 15 km við Blakk sem er í mynni grunnsins. Breidd í mynni Patreksfjarðar er 5,7 km en lengd úr mynni í botn um 21 km en fjörðurinn mjókkar mjög eftir því sem innar dregur. Norður úr botni hans gengur smáfjörður, Ósafjörður. Undirlendi á ströndum er sáralítið, einkum að norðanverðu. Utarlega í firðinum er dýpi mest rúmlega 70 metrar í ál sem gengur inn miðjan fjörð en grynnkar eftir því sem innar dregur og nær landi. Flatarmál fjarðarins innan við Tálkna er um 66 km2.

Á árunum 2008 til 2009 voru gerðar miklar vistfræðirannsóknir í Patreksfirði og Tálknafirði. Að þeim stóðu Hafrannsóknastofnun, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Þóroddur hf. Einnig tóku þátt í rannsóknunum tveir stúdentar við Háskóla Íslands með sérverkefnum á hveljum. Markmið rannsóknanna var að fá vitneskju um helstu umhverfisþætti í fjörðunum einkum með tilliti til þess hvort firðirnir hentuðu fyrir eldi í sjó. Mælingar voru gerðar á straumum, hita, seltu, næringarefnum og svifþörungum. Einnig voru gerðar athuganir á hveljum. 

Botnkort
Gert hefur verið botnkort af Patreksfirði með fjölgeislamæli (sjá mynd). Fram kemur að sunnan megin í firðinum er grunn ræma en síðan dýpkar mjög hratt niður í fjörðinn þar sem er 50-70 m dýpi. Norðan megin í firðinum eru nánast ekkert grunn nema á stöku stað. Þegar innar dregur í fjörðinn grynnkar og fyrir botni hans þar sem heitir Ósafjörður er grunnur þröskuldur en aðeins dýpra þar fyrir innan þó grunnt sé.

Fjölgeislakort úr Patreksfirði 

 

Fjölgeisladýptarkort af Patreksfirði.

 

Botngerð
Samhliða botndýrarannsóknum í Patreksfirði árið 2009 voru gerðar kornastærðarmælingar á botnsýnum úr firðinum (sjá töflu). Mitt í Patreksfirði, þar sem dýpi var mest, var leirbotn en nær landi var grófara efni. Hlutfall leirs hækkaði eftir dýpi og það er þekkt að dýpi og kornastærð haldast oft í hendur og ekki gott að segja hvort hafi meira vægi við flokkun í mismunandi samfélgög. Telja má að hlutfallslega þekur leir mun stærra svæði en sandur eða skeljasandur.

Mælingar á kornastærð sýndu að mjög fínt set <0,063 (decant) var ríkjandi á flestum stöðvunum í Patreksfirði. Yfir 55% leir var á alls níu stöðvum í firðinum.  Sandur (0,063-2 mm) var ríkjandi á stöðvum 6 og 4 (94,4 og 47,8%). Jafnt hlutfall sands og leirs var á stöð 7 í firðinum.

kornstærðarmælingar

Í Patreksfirði og Tálknafirði fóru fram miklar rannsóknir á grunnþáttum sjávar í firðinum á árunum 2008-2009. Safnað var gögnum um strauma, hita, seltu, næringarefni (sjá undir liðnum Sjór) og svifþörunga. Gögnum var safnað á 6 stöðvum í Patreksfirði og 4 stöðvum í Tálknafirði (sjá 1. mynd). Til viðbótar var safnað gögnum um marglyttu í fjörðunum og gerð ítarleg úttekt á botndýrum. Áður hafa verið gerðar allnokkrar rannsóknir á skeldýrum í fjörðunum með nýtingu í huga og ýmsar fiskifræðilegar rannsóknir.

Botndýralíf
Í Patreksfirði hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á botndýralífi á vegum Hafrannsóknastofnunar með tilstyrk Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og fleiri aðila. Var þar einkum haft í huga fyrirhugað fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sem þá var í undirbúningi. Hafrannsóknastofnun var fengin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Atvest, til að framkvæma rannsóknina. Rannsókninni stýrði Steinunn Hilma Ólafsdóttir botndýrasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun en rannsóknin var hluti af stærra verkefni í fjörðunum þar sem gerðar voru ýmsar rannsóknir á eðlis-, efna- og líffræðilegum þáttum fjarðanna.

Dagana 13. og 14. maí 2009 fór fram söfnun botndýra í Patreksfirði. Sýnum var safnað á 18 til 66 metra dýpi á 14 stöðvum í firðinum. Sýni voru tekin með Shipek botngreip og á hverri stöð voru tekin 3 greiparsýni. Úr einu greiparsýni á hverri stöð voru tekin hlutsýni til kornastærðargreiningar. Báturinn Tálkni frá Tálknafriði var notaður við sýnatökuna.

Algengustu tegundir
Úrvinnsla hefur farið fram á stöðvum 4, 5, 7, 9, 11, 12.  Alls hafa verið greindar 128 tegundir/hópar frá þessum stöðvum. Þessi dýr tilheyrðu að mestu fylkingum burstorma, krabbadýra og lindýra. Afar fáar tegundir tilheyrðu öðrum hópum og meðal annars var mjög lítið um skrápdýr og flest dýr sem tilheyrðu lindýrum voru samlokur.

Flestar tegundir/hópar fundust á stöð 4 (93) en fæstar á stöð 7 (39). Fjölbreytileiki botndýra var á milli 1,6 og 3,3 (Shannon H'loge) og var mestur á stöðvum 4 og 9.

Leirbotn var á stöðvum 5, 7, 9, 11 og 12. Tegundasamsetning botndýra milli þessara stöðva var mjög lík og myndar ákveðið botndýrasamfélag. Stöð 9 skar sig dálítið frá hinum með áberandi lítið af krabbadýrum. Burstaormurinn Galathowenia oculata var algengasta tegundin en aðrar algengar tegundir á þessum stöðvum voru gljáhytla (Ennucula tenuis) og burstaormurinn Cossura longocirrata.

Þar sem botninn var grófari (stöð 4), skar engin ein tegund sig verulega úr með mikinn þéttleika en algengasti burstaormurinn var roðamaðkur (Scoloplos armiger) og þráðormar voru einnig í töluverðum fjölda. Burstaormar sem eru rándýr voru nokkuð algengir á þessari stöð.

Heimildir
Benthic communities in Tálknafjörður and Patreksfjörður. (2015). Steinunn Hilma Ólafsdóttir. Hafrannsóknir nr. 179.
Gudrun G. Thorarinsdóttir, Hafsteinn G. Gudfinnsson, Svanhildur Egilsdóttir and Jón Örn Pálsson. (2013). The gametogenic cycle and spawning in Mytilus edulis L. in two fjords in northwestern Iceland. J. Mar. Biol. 93(6), 1609-1615
Guðrún G. Þórarinsdóttir, Hafsteinn G. Guðfinnsson og  Jón Örn Pálsson. (2015). Kræklingarækt og umhverfisaðstæður í Patreksfirði og Steingrímsfirði. Hafrannsóknastofnunin. Fjölrit nr. 177. Ritstjóri Karl Gunnarsson. Reykjavík 2014.
Gudrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994). Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland. Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100.
G. G. Thórarinsdóttir og S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters. J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?