Hnit - 65°54'N 22°35'W
Flatarmál - 25,6 km2
Meðaldýpi - Ekki þekkt
Mesta dýpi - 60 m
Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér langur mjór fjörður. Breidd í fjarðarmynni er 2,2 km milli Digraness og Miðtanga. Fjörðurinn svipaður á breidd inn undir Hrútey, sem er í miðjum firði, tæpa 6 km innan fjarðamynnis. Þar fyrir innan er fjörðurinn mjórri eða rúmlega 1 km á breidd og breytist lítið inn undir botn. Lengd frá fjarðarmynni í botn er 18,4 km en flatarmál fjarðarins er rúmir 25 km2.
Við fjarðarmynni er dýpi 40-60 m en með landinu austan megin og inn við Hrútey minna en 40 m dýpi. Litlar upplýsingar liggja fyrir um dýpi innan við Hrútey. Mjög lítið undirlendi er í firðinum. Margar ár renna í fjörðinn og eru þær mestu í botni fjarðarins og Gljúfurá sem er fyrir miðjum firði vestan megin.
Vatnsfjörður er lítill fjörður austan við Mjóafjörð. Breidd hans er tæpur 1 km (0,95 km) í fjarðarmynni. Lengd fjarðarins er 1,7 km en flatarmál um 1,6 km2. Dýpi er ekki tiltækt. Undirlendi er nokkurt í fjarðarbotni en inn af honum gengur langur dalur, Vatnsfjarðardalur. Í fjarðarbotni er vatn sem kallast Hóp og hefur afrennsli í fjörðinn en fær vatn sitt úr Þúfnaá sem rennur í gegnum Vatnsfjarðardal og á upptök sín í allstóru vatni innst í dalnum, Neðra Selvatni.