Langtímavöktun átu

Sjósýnataki og háfur. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

 

Markmið verkefnisins er að rannsaka langtímabreytingar á magni, tegundasamsetningu og útbreiðslu dýrasvifs á Íslandsmiðum og hvernig þessi atriði tengjast breytingum á umhverfisþáttum og plöntusvifi. Langtímamarkmið rannsókna af þessu tagi er að auka skilning okkar á tengslum umhverfis, átu og nýliðunar fiskistofnanna.

Í meira en 50 ár hafa farið fram rannsóknir á magni og útbreiðslu dýrasvifs að vorlagi í sjónum við Ísland. Upphaflega voru þær tengdar síldarrannsóknum og síldarleit fyrir Norðurlandi, en eftir hrun norsk-íslenska síldarstofnsins í lok sjötta áratugarins hefur þeim verið haldið áfram í tengslum við almennar umhverfisrannsóknir (þ.e. rannsóknir á hita, seltu, næringarefnum, þörungum og átu) í maí-júní. Rannsóknir þessar eru mikilvægar fyrir þekkingu okkar á umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland, og þær hafa gefið mikilvægar upplýsingar um útbreiðslumynstur, tegundasamsetningu, líffélög og framleiðni átu í tengslum við sjógerðir og um langtímabreytingar í átumagni á íslenska hafsvæðinu.

Til að sinna þessum rannsóknum er farinn einn rannsóknaleiðangur árlega að vorlagi (seinni hluti maí) og upplýsingum um umhverfisþætti, þörungasvif og átu safnað á um 90 staðalstöðvum umhverfis landið á rannsóknasniðum sem ná frá ströndinni og út fyrir landgrunnið. Beitt er stöðluðum aðferðum: sýnum af milliátu safnað úr yfirborðslögum (0-50 m) með fínriðnum háfum (WP2, 200µ), og bergmálstækni beitt til að meta magn og dreifingu stórátu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?