Á seinni hluta árs 2019 varð gerð breyting á skipuriti Hafrannsóknastofnunar og komið á fót Uppsjávarsviði sem sinnir rannsóknum á lífríki og umhverfi ofan botns og allt að yfirborði sjávar. Spanna rannsóknirnar því mörg fræðasvið m.a. sjávarlíffræði, fiskifræði, hafeðlis- og hafefnafræði. Verkefni sviðsins taka til rannsókna á langtímabreytingum á umhverfi, vistkerfi og lífverum sem og hagnýtra rannsókna vegna ráðgjafar um nýtingu.
Vöktun á ástandi sjávar er eitt af mikilvægu verkefnum á sviðinu. Markmið þess er að vakta langtímabreytingar á umhverfisþáttum í hafinu umhverfis Ísland. Í því felast m.a. mælingar á hitastigi, seltu, súrnun sjávar og styrk næringarefna á föstum stöðvum kringum Ísland í fjórum rannsóknaleiðöngrum ár hvert. Niðurstöður þessara mælinga eru ekki aðeins mikilvægar fyrir hinar ýmsu umhverfis- og vistfræðirannsóknir í kringum Ísland heldur líka til að auka skilning og þekkingu á breytingum í heimshöfunum, m.a. súrnun sjávar.
Efnafræðingur við súrefnismælingar.
Vegna vaxandi fiskeldis á Íslandi hafa rannsóknir á straumum og vöktun á öðrum þáttum umhverfisins á grunnsævi aukist á undanförnum árum. Þær rannsóknir eru grundvöllur ráðgjafar um burðarþol og þar með sjálfbærrar nýtingu fjarða og sjókvíaeldissvæða. Vinnan fellst m.a. í straummælingum í fjörðunum og gerð líkana sem mötin á burðarþoli byggja á.
Undirstaða alls lífs hafanna byggir á svifþörungum og frumframleiðni þeirra. Árleg vöktun á svifþörungum fer fram að vori með annarri vöktun á umhverfisþáttum en einnig eru notuð fjarkönnunargögn til að meta frumframleiðni og árlegan framgang hennar. Markmiðið er að fylgjast með gróðurfari umhverfis landið. Í viðbót við þessar rannsóknir fer fram vöktun á hverju sumri á eitruðum svifþörungum á strandsvæðum.
Dýrasvif.
Dýrasvif gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfi hafanna sem hlekkur í fæðukeðjunni milli svifþörunga og dýrasvifsæta (s.s. uppsjávarfiska, fiskungviði og skíðishvala). Rannsóknir á dýrasvifi miða að því að auka skilning á líffræði mismunandi tegunda auk þess sem unnið er að því að rannsaka breytileika í þéttleika og tegundasamsetninga milli hafsvæða og ára með margskonar aðferðum. Þá hefur verið unnið að því á undanförnum árum að þróa frekari leiðir til að nota bergmálsmælingar til mælinga á stórátu (aðallega ljósátu). Þær mælingar eru orðnar að föstum þætti í vorrannsóknaleiðangri kringum landið.
Helstu rannsóknir
Rannsóknir á uppsjávarfiskistofnum eru umfangsmestar á sviðinu. Meginmarkmiðin miða að því að meta stofnstærð og veiðiþol loðnu, sumargotssíldar, norsk-íslenskrar vorgotssíldar, kolmunna, makríls og hrognkelsis. Markmið um sjálfbæra nýtingu krefst auk þess fjölbreytta rannsókna á líffræði, útbreiðslu, göngum, og vistfræðilegum tengslum þessara fiskistofna, þar með talið tengslum þeirra við umhverfi, dýrasvif og spendýr. Þessar rannsóknir krefjast mikils úthalds rannsóknaskipa yfir víðáttumikil svæði innan og utan íslensku landhelginnar. Margir þessara rannsóknaleiðangra eru alþjóðlegir og eru skipulagðir innan vinnunefnda Alþjóðahafrannsóknrráðsins (ICES), sem og stofnmatsvinnan. Slæmt ástand loðnustofnsins og breytingar á útbreiðslu hans var kveikjan að viðamiklu og fjölbreyttu fimm ára átaksverkefni sem byrjaði árið 2018 að fenginni aukafjárveitingu. Vinna að mismunandi verkþáttum þess er í gangi og munu niðurstöður birtast á næstu árum. Þá verður á næstu árum lögð aukin áhersla á rannsóknir á miðsjárvartegundum (t.d. laxsíldar og gulldeplu) vegna þeirra nýtingarmöguleika sem þar felast. Verður það meðal annars gert í gegnum tvö alþjóðleg verkefni styrkt af Evrópusambandinu sem stofnunin er þátttakandi í og munu standa yfir árin 2019-2021.
Rannsókn á fjölda grindhvala sem strönduðu á Löngufjörum sumarið 2019.
Rannsóknir á spendýrum beinast að því að leggja mat á stofnstærð þeirra fjölmörgu hvalategunda sem finnast við landið og þeirra tveggja selastofna sem hér finnast og kæpa (landselur og útselur). Jafnframt eru stundaðar viðamiklar rannsóknir á líffræði spendýra, göngum, atferli og stöðu þeirra í vistkerfinu.
Sameiginlegt markmið allra rannsókna á sviðinu er að veita ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins, að skýra vistfræðileg tengsl hinna fjölbreyttu tegunda og áhrif breytilegs umhverfis á þessa þætti. Þá er rannsakað álag á vistkerfin af völdum framkvæmda svo sem fiskeldis og stjórnvöldum og hagsmunaaðilum veitt fjölbreytt ráðgjöf.