Hafrannsóknastofnun hefur sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi og leggur áherslu á að stuðla að góðri umhverfisvitund starfsfólks. Stefnan tekur til allrar starfsemi stofnunarinnar, þ.m.t. innkaupa, vinnuumhverfis á sjó, vötnum og landi, notkun efna og orku, góðri meðferð afla, ásamt meðhöndlun efna og úrgangs.
Umhverfisnefnd er starfandi á stofnuninni og ber ábyrgð á framkvæmd umhverfisstefnunnar í umboði framkvæmdastjórnar. Jafnframt skal nefndin koma með tillögur að endurskoðun umhverfisstefnunnar.
Stefnan er stöðugt í endurskoðun og er henni framfylgt í samráði við starfsfólk.
Markmið
- Innleiðing Grænna skrefa.
- Vistvæn innkaup.
- Minni orkunotkun.
- Minna sorp.
- Sérstök gát á efnum sem stofnunin notar.
- Vistvænar samgöngur verði notaðar ef þess er kostur.
- Umhverfisstefnan sé sýnileg og í stöðugri þróun.
Aðgerðir / leiðir til að ná markmiðum:
Græn skref
Hafrannsóknastofnun tekur þátt í Grænum skrefum og skilar árlega inn upplýsingum í Grænt bókhald. Hafrannsóknastofnun fékk vottun þann 8. desember 2021 á að aðalstöðin við Fornubúðir uppfylli fyrstu þrjú skrefin. Stefnt er að því að ljúka fjórða skrefi fyrir árslok 2024. Stefnt er að því aðrar starfsstöðvar og rannsóknaskip ljúki þriðja skrefi vor 2024.
Vistvæn innkaup
Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eða þjónusta eru sambærilegar að gæðum ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu.
Minni orkunotkun
Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu. Starfsfólk tölvudeildar stilli orkunotkun tölvubúnaðar, ljósritunarvéla og prentara þannig að búnaðurinn fari í viðbragðsstöðu (e. standby) eða slökkvi á sér, standi hann ónotaður í ákveðin tíma. Starfsfólk slökkvi sjálft á tölvu þegar farið er heim um helgar, í sjóferðir eða í frí. Slökkva á ljósum í þeim rýmum sem ekki eru í notkun og draga skal úr lýsingu yfir sumartímann þar sem hægt er.
Minna sorp
Unnið er að því að draga úr myndun sorps og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu þess með því að:
- Fara sparlega með efni og efnavörur.
- Nota ekki einnota borðbúnað og minnka notkun óþarfa umbúða.
- Farga úrgangi á viðeigandi hátt.
- Lágmarka pappírsnotkun, m.a. með því að vista skjöl rafrænt eins og kostur er, prenta báðum megin á blöð og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu.
- Upphafsstilling prentara skal vera sú að prentað sé báðum megin á blað.
- Endurnýtanlegur úrgangur er flokkaður og skilað til endurnýtingar.
- Ílát til flokkunar eru á hverri hæð.
- Fjölda íláta fyrir hefðbundið sorp er haldið í lágmarki.
Sérstök gát á efnum sem stofnunin notar
Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, s.s. rafhlöðum, prenthylkjum, glervöru, ljósaperum og efnum. Ílát til flokkunar á þeim skulu vera aðgengileg.
Vistvænar samgöngur verði notaðar ef þess er kostur
Skipakostur Hafrannsóknastofnunar skal nota búnað til að draga úr eldsneytisnotkun og umhverfismengun. Við kaup á bifreiðum fyrir stofnunina skal velja þær sem eru sparneytnar og vistvænar. Búningsaðstaða og sturtur eru til staðar fyrir starfsfólk vilji það nýta sér aðrar leiðir en að aka til vinnu. Hjólagrindur og innanhúss hjólageymsla er í boði í starfstöð við Fornubúðir. Hafrannsóknastofnun býður starfsfólki samgöngustyrki kjósi það að nýta sér almenningssamgöngur eða annan vistvænan samgöngumáta. Sérmerkt bílastæði með hleðslustöðum fyrir rafmagnsbifreiðar eru við Fornubúðir. Teknir eru umhverfisvænir leigubílar þegar kostur er. Starfsfólki er boðið upp á vistakstursnámskeið.
Umhverfisstefnan sýnileg og í stöðugri þróun
Hafrannsóknastofnun mun halda yfirlit yfir helstu „grænu“ lykiltölur í rekstri og skrá og vakta árangurinn með það að markmiði að stuðla að betri nýtingu auðlinda, draga úr sóun hráefna og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Dæmi: pappírsnotkun, orkunotkun, efnanotkun og magn sorps.
Stefnt skal að því að starfsfólk Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna fái reglulega fræðslu um umhverfismál.
Síðast breytt: Janúar 2024