Skil á merkjum

Fiskifræðingar geta aðeins unnið úr merkingagögnum ef fiskar endurheimtast og því eru skil á merkjum forsenda þessara rannsókna. Stangveiðimenn, sjómenn og starfsfólk í fiskvinnslum hafa verið öflugir liðsmenn í merkingaverkefnum og er þátttaka þeirra ómetanleg.

Endurheimt merki skal senda til Hafrannsóknastofnunar, Fornubúðum 5, 220 Hafnarfirði. Fundarlaun eru greidd fyrir hvert endurheimt merki, 2.000 kr. fyrir hvert slöngumerki, 10.000 kr. fyrir rafeindamerki og 5.000 fyrir hverja endurheimta grásleppu sem skilað er. Sendandi fær einnig sendar upplýsingar um hvar og hvenær fiskurinn var merktur og ef kvarnir fylgja, fær hann einnig upplýsingar um aldur hans. Hægt er að senda fyrirspurnir varðandi merkingar/endurheimtur á merki[hjá]hafogvatn.is

Upplýsingar sem beðið er um að fylgi öllum endurheimtum fiskmerkjum:

  • Númer og einkennisstafir merkis – merkið verður að fylgja
  • Tegund fisks
  • Lengd – mæld lengd, sjá leiðbeiningar
  • Veiðistaður – miðað við þekkt kennileiti
  • Veiðidagur – dagur, mánuður, ár. Ef ekki er vitað nákvæmlega um veiðidag má gefa upp tímabil
  • Nafn sendanda, heimilisfang, símanúmer og kennitala

Að auki þurfa eftirfarandi upplýsingar að fylgja endurheimtum fiskmerkjum úr sjó:

  • Kyn og kynþroski (sjá leiðbeiningar)
  • Kvarnir
  • Staðsetning (norðlæg breidd, vestlæg lengd). Ef nákvæm staðsetning er ekki þekkt er æskilegt að skrá tilkynningaskyldureit eða nafn á hafsvæði
  • Veiðarfæri. Ef fiskurinn er veiddur í net er æskilegt að fá einnig möskvastærð
  • Dýpi. Taka skal fram hvort átt er við faðma (fm) eða metra (m)
  • Nafn skips og skipaskrárnúmer
  • Fisk með rafeindamerki skal senda í heilu lagi með merkjum í, ef þess er nokkur kostur ásamt upplýsingum. Ef það er ekki hægt skal setja rafeindamerkið og venjulega merkið saman í umslag ásamt upplýsingum og kvörnum

Athugið að:

Merkið verður að senda ásamt skriflegum upplýsingum til Hafrannsóknastofnunar, ekki nægir að hringja eða senda tölvupóst og tilkynna fundinn.

  • Öll fiskmerki, jafnt innlend sem erlend, verða að berast Hafrannsóknastofnun, hvort sem fullnægjandi upplýsingar eru með þeim eða ekki
  • Hvert merki ætti að vera í sér umslagi með þeim upplýsingum sem því fylgja
  • Mikilvægustu upplýsingarnar eru staðsetning og veiðidagur
  • Aðeins skal senda þær upplýsingar sem teljast áreiðanlegar
  • Umslög fyrir endurheimtur ættu að vera í hverju veiðiskipi, þau eru víða að finna t.d. við hafnarvogir og í frystihúsum, en einnig má hafa samband við Hafrannsóknastofnun (merki[hjá]hafogvatn.is) og fá slík umslög send.
  • Ef þú veiðir merkt hrognkelsi ertu beðinn um að hringja í númerið sem er á merkinu (896-7977) og tilkynnta staðsetningu. Ekki fjarlægja merkið en komið fiskinum sem fyrst í frysti og í kjölfarið verður reynt að nálgast hann. Eingungis er greitt ef fiskurinn skilar sér í heilu lagi og merkið er enn í honum.

Lengdarmælingar á fiski

mynd af þorsksporðHeildarlengd fisks er mæld í heilum sentimetrum frá trjónuenda að sporðblöðkuenda. Ef t.d. sporðblaðkan endar á 73,5 til og með 74,4 sm. (sjá mynd 2) þá er fiskurinn 74 sm. Til þæginda má láta trjónu nema við sléttan lóðréttan flöt (t.d. spjald) og mæla þannig að sporðblöðkuendanum.

Kyn og kynþroski

Yfirleitt er auðvelt að greina fiska í hænga eða hrygnur ef ekki hefur verið gert að fiskinum. Ef tök eru á er æskilegt að skrá upplýsingar um kynþroska.

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar greina kynþroska fiska yfirleitt í fjögur stig:

  1. Ókynþroska fiskur
  2. Kynþroska fiskur, undirbúningsstig fyrir hrygningu
  3. Hrygnandi fiskur, svil og hrogn renna, hrogn glær
  4. Millistig, eftir hrygningu þar til undirbúningsstig næstu hrygningar byrjar

Æskilegt er að skrá viðeigandi númer fyrir kynþroska og/eða stutta lýsingu á hrognum eða svilum sem athugasemdir.

Kvarnirnar

Þær liggja tvær, hvítar að lit, harðar viðkomu og liggja sitthvoru megin við aftari hluta heilans. Kvarnir eru notaðar til að aldursgreina ýmsa nytjafiska, t.d. þorsk, ýsu og skarkola. Myndir sýna kvörnun á þorski, hvernig skorið, höggvið eða sagað er í hausinn skáhallt aftan við augun til þess að ná kvörnunum.

mynd af kvörnun fisks

Skorið er skáhalt niður í höfuð fisksins, aftan við augu. Höfuð fisksins er opnað og kvarnirnar sjást sitthvoru megin við aftari hluta heilans.

Rafeindamerki

Rafeindamerki innihalda upplýsingar sem eru skráðar í tölvuminni sem einnig er í hylkinu. Merkin verða því að komast aftur í hendur Harannsóknastofnunar til að hægt sé að flytja upplýsingarnar í tölvu og nýta þær til rannsókna.

mynd af ísetningu rafeindamerkis í fisk

1) Rafeindamerki komið fyrir i kviðarholi þorsks.  2) Rafeindamerki og t-festumerki fest útvortis á skarkola.

Á bolfiski, m.a. þorski og ufsa, eru merkin sett í kviðarhol með skurðaðgerð og saumað við þunnildið milli gotraufar og lífodda. Svo sjáist að fiskurinn er merktur á þennan hátt er gulur plastþráður (svipaður rafmagnsvír) festur á annan endann á merkinu og liggur hann út í gegnum þunnildið rétt framan við gotrauf. Á flatfiskum eru merkin fest útvortis.

Uppfært 10. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?