Skráning á afla

Veiðibók

Allan afla hverju sinni skal skrá í veiðibók sem vanalega er að finna í veiðihúsum eða á öðrum tilgreindum stöðum. Í vatnakerfum þar sem stangaveiðileyfi eru seld er algengt að útbúin hafi verið aðstaða fyrir veiðimenn (t.d. í veiðihúsum) til að þyngdar- og lengdarmæla afla en þær mælingar eru nauðsynlegar meðfylgjandi skráningu afla.

Á slíkum stöðum eiga hreistursumslög að vera fyrirliggjandi fyrir hreistursýni. (sjá leiðbeiningar með yfirskriftinni: Hreistursýnataka). Þar eru einnig oft tiltækar leiðbeiningar er varða mælingar á fiski, hreistursýnatöku og skráningu upplýsinga er varða merkta fiska. Nafn og/eða númer veiðisvæða eiga að fylgja þegar afli er skráður, hvort heldur er á hreisturumslag eða í veiðibók. Þegar afli er færður í veiðibók þá á einungis að færa upplýsingar um einn fisk í hverja línu.

Til viðbótar fyrirliggjandi leiðbeiningum er rétt að benda á að æskilegast er að lengdarmæla fiska áður en þeir eru ísaðir eða frystir. Ef slíkt er ekki gerlegt þarf sérstaklega að geta þess í veiðibók að mælingin hafi verið gerð í kjölfar ísunar/frystingar.

Í veiðibækur skal skrá:

  1. Nafn veiðimanns.
  2. Dagsetningu veiði.
  3. Tegund afla (lax, urriði, bleikja, áll, flundra, hnúðlax). Ef um silung er að ræða þarf að skrá hvort hann er staðbundinn eða sjógenginn.
  4. Kyn.
  5. Þyngd skal skrá í kg með einum aukastaf, t.d. 3,2 kg.
  6. Lengd skal skrá í cm.
  7. Veitt og sleppt. Merkja skal við ef fiski er sleppt. Sé fiski sleppt þarf að fara vel með hann þar sem vigtun getur reynst erfið. Í þeim tilfellum er lengdamæling mikilvæg.
  8. Númer veiðistaðar. Ef veiðistaðir eru ekki númeraðir þurfa veiðiréttarhafar að gera það í lok veiðitíma.
  9. Nafn veiðistaðar. Skrá skal skilmerkilega nöfn veiðistaða, ekki nota styttingar eða gælunöfn. Ef ekki er þekkt heiti skal skrá afla á næsta merkta veiðistað.
  10. Beita, fluga, maðkur eða annað.
  11. Heiti flugu eða túpu.
  12. Stærð önguls.
  13. Í athugasemdir má setja aðrar upplýsingar eins og hvort fiskar hafi verið merktir, hvort hreistur hafi verið tekið af viðkomandi fiski. Einnig aðrar þær upplýsingar sem veiðimenn telja að gagni geti komið.
  14. Aðeins skal skrá einn fisk í hverja línu.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?