Um sjávarlús og laxalús

Sjávarlýs, (Lepeophtheirus salmonis) eða laxalús og (Caligus elongatus) eða grálús, eru náttúruleg sníkjudýr á laxfiskum. Lýsnar nærast á slímhúð, húð og blóði fiskanna og valda þannig stressviðbrögðum hjá þeim. Þær bera stundum með sér annars konar sýkingar og geta einar og sér valdið dauða fiska séu þær í miklum mæli. Rannsóknir sýna að á svæðum þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er stundað eru villtir laxfiskar meira smitaðir af sjávarlús, einna helst laxalús, heldur en svæðum án eldis.

Laxalúsin, hefur karldýr og kvendýr og átta þroskastig (Mynd 1). Sviflægar lirfur klekjast úr eggjum sem liggja í strengjum utan á kvendýrinu. Egg klekjast eftir 8,7 daga við 10°C en klak getur tekið allt að 45 daga við 2°C. Fyrsta lirfustigið kallast nauplius I sem hefur hamskipti í annað lirfustig, nauplius II eftir 9 tíma ef sjórinn er 15°C en getur tekið 52 tíma við 5°C. Þroskun nauplius II tekur mun lengri tíma, en hamskipti verða eftir 36 klukkustundir við 15°C sjávarhita en 170 klst. við 5°C. Þriðja og síðasta lirfustigið kallast copepodid en á því stigi þarf dýrið að finna sér hýsil til að festa sig á. Lirfan getur verið án hýsils í allt að tvær vikur en það fer eftir hitastigi. Því hærri hiti, því styttri tíma hefur hún, en hún lifir á forða á þessu stigi. Eftir 10 daga reynist lirfunni erfitt að festa sig á hýsil ef sjávarhiti er undir 12°C. Þroskunartími lengist því með lækkandi hitastigi, en þegar hitastig sjávar fer niður í 2°C tekur ferlið frá klaki að copepodid stigi allt að tveimur mánuðum. Sýnt hefur verið fram á að við svo lágt hitastig lifa aðeins 25% lirfa fram að copepodid stiginu.

Copepodid lirfan hefur það hlutverk að finna réttan hýsil, þ.e. laxfisk til að lifa af og þroskast. Hún getur fært sig upp og niður í vatnssúlunni og eru hreyfingarnar háðar birtu. Þær eru helst að finna nálægt yfirborði sjávar yfir daginn en fara dýpra að nóttu til. Þetta getur haft áhrif á leit lirfunnar að hýsli þar sem laxfiskar halda sig dýpra á daginn en í yfirborðið á næturnar. Þannig eru meiri líkur á að lirfur og fiskar hittast á þessari leið. Lirfur skynja hreyfingar fiska í vatni og nota þá skynjun til að nálgast þá. Lirfur nota einnig lyktarskyn, en lúsin (einnig seinni þroskastig en lirfan) nýtir lyktarefni laxfiska í vatninu til að þekkja þá í sundur frá öðrum fiskum.

Copepodid lirfan festir sig fyrst á hýsilinn með grip-fálmurum. Þegar lúsin hefur fest sig getur hún byrjað að nærast á slími, húð og blóði hýsilsins og býr til anga undir húðinni sem festir hana betur. Stuttu seinna hefur lirfan hamskipti í næsta lirfustig, chalimus I, og festir sig betur með vökva sem virkar eins og lím. Chalimus I hefur síðan hamskipti yfir í chalimus II sem svo hefur hamskipti yfir í einskonar forstig fullorðinsstigs. Þessi síðustu hamskipti frá lirfustigi verða um 12 dögum eftir að copepodid festir sig fyrst á hýsilinn hjá karlkynslúsum, en eftir um 14 daga hjá kvenkynslúsum. Við hamskipti í fyrsta forstig fullorðinsstigs losnar lúsin og getur aftur skriðið um hýsilinn. Til að halda sér á hýslinum notar hún búkinn eins og sogskál. Hún getur einnig farið af hýslinum og synt á nýjan hýsil þurfi hún þess. Á þessu stigi er fyrst hægt að kyngreina dýrin.

Hamskipti eiga sér aftur stað og þroskast lúsin þá yfir í annað forstig fullorðinsstigs (preadult II). Hamskipti frá öðru forstigi fullorðinsstigs yfir í fullvaxta lús eiga sér næst stað og þá verður lúsin loks kynþroska (Mynd 1). Kvendýrið er tvöfalt stærra en karldýrið, en fullvaxin kvenlús er um 12 mm og getur náð 29 mm með eggjastrengjum, meðan kardýrið er um 6 mm. Fullorðnar lýs þrífast illa eftir því sem selta minnkar og losna af laxfiskum þegar þeir ganga í ferskvatn. Laxalýs geta lifað á bleikju í allt að þrjár vikur í ferskvatni. Æxlunaratferli hefst oftast með fullvaxta kynþroska karldýri og ókynþroska kvendýri á preadult II stigi. Karldýrið heldur kvendýrinu með gripfálmurum en á meðan framleiðir kvendýrið tímabundinn anga að framan og festir sig við hýsilinn áður en hún hefur hamskipti. Kvendýrið hefur síðan hamskipti á meðan karlinn heldur sér föstum við hana.

Eftir hamskiptin færir karlinn sig og festir sig á æxlunarfæri kvendýrsins sem þá er orðið kynþroska. Þegar hér er komið losar kvendýrið sig af hýslinum og æxlun á sér stað með því að karldýrið lyftir upp æxlunarfærum kvendýrsins með fótum sínum. Karldýrið notar síðan sundfæturna til að flytja tvö sæðishylki að kvendýrinu og festa þau á æxlunarfæri þess. Hann heldur þeim þar í nokkurn tíma til að tryggja að þau sitji föst áður en hann fer aftur frá kvendýrinu. Þetta ferli getur tekið hátt í 6 daga frá því að karldýrið festir sig fyrst á kvendýrið. Karldýrið byrjar að leita að nýjum maka um leið og hann yfirgefur kvendýrið, en þá lokast æxlunarfæri hennar og hún æxlast ekki aftur. Sæðishylkin fara inn í sæðisgeymslu kvendýrsins en æxlunarfæri hennar ná fyrst fullri stærð eftir um tvær vikur og eggjastrengir verða sýnilegir eftir um 10 daga (Mynd 2). Eggin fara í gegnum rás þar sem þau eru þakin í vökva eða lími áður en þau ýtast í einfaldri röð út um þar til gerð op æxlunarfæra. Límið myndar himnu utan um eggin sem heldur þeim í svokölluðum eggjastrengjum. Kvendýrið virðist því vera með tvö skott þegar eggin eru komin út. Í himnunni eru eggin varin og þroskast þar til þau klekjast í nauplius I.

Kvendýr laxalúsar lifir í 190-210 daga frá því að hún verður fullvaxta. Hún framleiðir eggjastrengi um leið og æxlunarfæri hennar hafa náð fullum vexti sem gerist ekki fyrr en eftir fyrstu æxlun. Hún geymir sæði karldýrsins og framleiðir eggjastrengi alla sína lífdaga sem fullvaxið kvendýr. Mest hefur verið sýnt fram á 11 pör af strengjum frá einu kvendýri en að meðaltali eru um 150 egg í hverjum streng. Því getur eitt kvendýr framleitt vel yfir 3000 egg á lífsferli sínum. Lífslíkur minnka þó með hverjum streng sem framleiddur er og aðeins um 25% afkvæma úr síðustu strengjunum ná copepodid. Eggjaframleiðsla, bæði fjöldi, stærð og lifun fer einnig eftir hitastigi.

mynd af ferli laxalúsar

Mynd 1. Lífsferill laxalúsar, mynd aðlöguð úr Igboeli o.fl. 2014.

mynd sem sýnir þroskun æxlunarfæra kvenkyns laxalús

Mynd 2. Þroskun æxlunarfæra kvenkyns laxalúsar. Búkur (CT) nær að æxlunarfærum (GS) sem eru utan um afturbol, úr æxlunarfærum hanga tveir eggjastrengir (sjá T5 og T6). Mynd frá Eichner o.fl. (2008)

Heimild: Eva Dögg Jóhannesdóttir, 2019. Sea lice infestation on wild salmonids in southern part of the Icelandic Westfjords, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild (Department of Aquaculture and Fish Biology), Háskólinn á Hólum (Hólar University College), 58 bls. (pp 58). Ritgerð til 90 eininga Magister Scientarium prófs í sjávar- og vatnalíffræði.

 

Á árinu 2022 var sett upp „Mælaborð fiskeldis” https://www.mast.is/is/maelabord-fiskeldis

Á mælaborðinu er greiðlega hægt að finna þætti, er varða fiskeldi á borð við kortasjá með staðsetningum, umfangi rekstrarleyfa, framleiðslu í sjókvíaeldi, fjölda fiska og lífmassa, fjölda laxalúsa og afföll eftir landshlutum og fjörðum.

Laxalús (Lepeophtheirus salmonis) lét lítið fara fyrir sér fyrstu áratugi sjókvíaeldis hér við land. Í takt við aukið umfang laxeldis og samfara einmuna tíð og óvenju hlýjum sjó yfir vetrarmánuðina varð fyrstu breytinga vart vorið 2017. Í kjölfarið mátti greina fjölgun laxalúsar á vissum svæðum á Vestfjörðum, en á Austfjörðum hefur engin breyting átt sér stað og nánast enga laxalús verið að finna þar. Síðastliðin fjögur ár hefur sjávarhiti aftur nálgast fyrra horf og laxalúsin gefið eftir að sama skapi, en á vissum svæðum fyrir vestan land þarf að vera á varðbergi.

Fiskilús (Caligus elongatus) hefur einnig verið meira áberandi, sérstaklega í kvíum að hausti og fram á vetur. Fiskilús er minni og með sogskálar og veldur ekki sárum á kvíafiski, en getur þó verið hvimleið og valdið óþarfa áreiti og óróleika í kvíum. Laxalúsin er stærri og með kröftugar bitklær sem valdið getur sárum við ákveðnar aðstæður. Í þorskeldi fyrri ára hér við land var fiskilús algengust, en þó í bland við þorskalúsina (Caligus curtus).

Eins og við var að búast hefur aukið umfang laxeldis í sjókvíum á Vestfjörðum búið í haginn fyrir ofangreind sníkjudýr og þau eiga nú auðveldara um vik þegar kemur að tímgun og viðgangi. Eldisstöðvarnar starfrækja öflug eftirlitsteymi sem hafa nú í nokkur ár vaktað þróun mála með reglubundnum lúsatalningum á þeim tíma sem sjávarhiti er yfir 4°C. Staða lúsamála var almennt mjög hagstæð fyrstu 9 mánuði ársins, en á haustin tekur við tímabil þar sem fiskilús færist í aukana og þarf að gefa gaum.

Í október 2022 fór Dýrafjörður aðeins að skera sig úr og skynsamlegt þótti að ljá máls á að heimila aðgerð til að fyrirbyggja að lús næði að fjölga sér um of í firðinum. Lúsatölur náðu þó aldrei neinum krítískum hæðum (1,3 fullorðin kvenlús/fisk á Haukadalsbót og 0,6 kvenlús/fisk á Eyrarhlíð II). Niðurstaðan varð sú að MAST heimilaði böðun með lyfinu Alpha Max á ofangreindum nágrannasvæðum, eftir jákvæða umsögn frá bæði fisksjúkdómanefnd og Hafrannsóknastofnun. Böðun var framkvæmd í byrjun nóvember og tókst með ágætum, en þetta var jafnframt í sjötta og sjöunda sinn sem staðbundin meðhöndlun gegn laxalús er heimiluð á Vestfjörðum.

Heildaryfirlit lyfjagjafa gegn laxalús frá 2017 og fram til 2021 er annars eftirfarandi: Fyrsta meðhöndlun átti sér stað við Hringsdal í Arnarfirði í júní 2017. Um mánaðamótin júní/júlí 2018 fór meðhöndlun fram á tveimur svæðum samtímis (Steinanes í Arnarfirði og Laugardalur í Tálknafirði). Í lok nóvember 2019 fékkst leyfi til að baða lax við Eyrarhlíð I í Dýrafirði og í byrjun júní 2020 fór fram böðun við Tjaldanes í Arnarfirði. Engin breyting hefur átt sér stað á Austfjörðum, en þar hefur ekkert orðið vart við laxalús á kvíalaxi.

Hrognkelsi hafa þjónað mikilvægu hlutverki við að halda laxalúsinni í skefjum og hafa vestfirsk laxeldisfyrirtæki verið ötul við að tileinka sér þessa umhverfisvænu vörn. Sú reynsla sem fengist hefur á undanförnum árum sýnir svo ekki verður um villst að hrognkelsin búa yfir einstæðum hæfileikum til að leita uppi og éta lús og greinilegt að bæði laxi og hrognkelsum gagnast samvinnan. Vel er staðið að móttöku seiðanna og er þeim gefið sérstakt hrognkelsafóður samhliða vinnu sinni við að éta lús. Stöðugt er leitað leiða til að nýta hrognkelsin eftir að þau hafa skilað sínu hlutverki, ekki síst hjá Nofima í Noregi.

Undanfarin ár hafa ýmsar breytingar átt sér stað í tengslum við leikreglur um eftirlit með laxalús og var nýr tónn m.a. gefinn með breytingum á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi á lokadögum vorþings 2019, sem tóku gildi 1. janúar 2020. Breytingarnar fólu m.a. í sér auknar kröfur um innra eftirlit eldisstöðva þar sem vöktun á lús í kvíaeldi var sett í ákveðinn farveg. Nánari leiðbeiningar um framkvæmd voru settar í reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi sem gefin var út 2. júní 2020. Reglugerðin kveður nánar á um vöktun og innra eftirlit og tínir til þau atriði sem ber að senda reglulega til yfirvalda, ásamt því efni sem birta skal opinberlega á vefsíðu MAST.

Því skal þó haldið til haga að þessi sömu fyrirtæki hafa allt frá því að þau hófu laxeldi í sjó staðið vaktina og fylgt leiðbeiningum MAST.

Eftir því sem umfang eldis hefur vaxið hafa heilbrigðisteymi stöðvanna þróað og útfært betur þá tækni að svæfa lax og telja lús með samræmdum hætti og hafa eftirlitsaðilar ávallt haft fullan aðgang að niðurstöðum. Auk ofangreindra breytinga hefur einnig um skeið staðið til að setja viðmiðunarmörk á fjölda kynþroska kvenlúsa á hverjum fiski. Í því sambandi tóku gildi breytingar á reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi og reglugerð nr. 300/2018 um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðum þann 1. nóvember 2021.

Þessar breytingar fela m.a. í sér að auk vöktunar á viðkomu sníkjudýra í innra eftirliti sjókvíaeldisstöðva skulu rekstraraðilar starfa samkvæmt viðbragðsáætlun um viðkomu sníkjudýra sem háð er samþykki MAST. Viðbragðsáætlun skal m.a. fela í sér aðgerðir þegar meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa fer yfir 0,5, 1, 1,5 og 2 á hvern fisk innan viðkomandi svæðis. Ef fjöldi laxalúsa fer yfir þessi mörk skal tilkynna það til MAST. Þegar tilkynning um virkjun viðbragðsáætlunar berst skal stofnunin meta hvort ráðstafanir nái þeim árangri sem að sé stefnt eða hvort annarra aðgerða en tilgreindar eru í viðbragðsáætlun sé þörf. MAST skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun um aðgerðir er tekin.

Lyf gegn laxa- og fiskilús

Staða lúsamála var almennt hagstæð á árinu 2022. Það var ekki fyrr en líða fór á haustið að fjöldi fiskilúsar þróaðist með því móti að ákveðið var að spyrna við fótum á vissum svæðum áður en vetur gengi í garð. Að vel ígrunduðu máli og eftir jákvæða umsögn fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknastofnunar gaf MAST heimild til meðhöndlunar á eldissvæðum í þremur fjörðum. Á tímabilinu frá lok október og fram í nóvember voru framkvæmdar meðhöndlanir gegn fiskilús með Slice-fóðurgjöf við Kvígindisdal og Eyri í Patreksfirði, Haganesi og Fossfirði í Arnarfirði og Eyrarhlíð I í Dýrafirði. Í nóvember þótti svo rökstudd ástæða til að hreinsa laxalús á tveimur aðliggjandi eldissvæðum í Dýrafirði með hjálp baðlyfsins Alpha Max. Fylgst var vel með árangri meðhöndlunar og reyndist hann góður á öllum svæðum.

Heimild: Ársskýrla dýraleæknis fisksjúkdóma. https://www.mast.is/static/files/skyrslur/arsskyrsla-dyralaeknis-fisksjukdoma-2022.pdf
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?