Hornsíli (Gasterosteus aculeatus L.) er eina tegundin innan sílaættarinnar, Gasterosteidae, sem lifir á Íslandi. Hornsíli eru smávaxin, 3 – 10 cm, og er helsta einkenni þeirra þrír broddar sem vaxa uppúr baki, en broddarnir eru greiningaratriði á milli tegunda síla. Broddarnir nýtast sem varnarmekanismi þegar hornsílin skynja hættu, þá reisa þau upp broddana í lóðrétta stöðu sem gerir erfitt fyrir afræningja að gleypa hornsílið. Hornsíli lifa ýmist í fersku vatni, ísöltu og söltu. Ekkert hreistur er að finna á roði hornsíla heldur hafa þau beingerðar plötur á baki, hliðum og á kviðnum. Þrjú afbrigði hornsílis finnst hér á landi og eru afbrigðin aðgreind á plötufjölda á hliðum sílana. Einu afbrigðinu tilheyra mest sjógöngustofnar, öðru staðbundnir stofnar í ferskvatni og í hinu þriðja eru bæði sjógöngustofnar og staðbundnir stofnar (Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson, 1996).
Hornsíli, ásamt öðrum tegundum sílaættarinnar, finnast á norðurhveli jarðar og eru með víða útbreiðslu. Hornsíli finnast í öllum þremur álfunum í norðri, Evrópu, Asíu og Ameríku og er útbreiðsla hornsíla bundin ströndum á meginlöndunum en á Íslandi finnast hornsílin um allt land.
Fæðunám hornsíla er breytilegt eftir búsvæðum. Í ám nærast hornsílin mest af botninum og samanstendur fæðan aðallega af smáum hryggleysingjum sem finnast í botnsetinu, t.d. rykmýslirfur og ýmiss krabbadýr. Í stöðuvötnum éta hornsílin bæði botnlæga hryggleysingja ásamt sviflægri fæðu úr vatnsbolnum, t.d. árfætlur (copepoda), augndíla (Cyclopidae) og langhalafló (Daphnia longispina). Fæða hornsíla í ísöltu vatni og sjó hefur lítið verið rannsökuð á Íslandi, en í Skandinavíu eru marflær og þanglýs algeng fæða hornsíla.
Atferli hornsíla er kemur að æxlun hefur vakið mikla athygli, sérstaklega hvað varðar hænginn. Þegar líða fer á sumarið og hrygning nálgast, í júní til júlí, tekur hængurinn á sig skrautlegann riðabúning. Hængurinn verður rauður á framanverðum búknum og blár í kringum augun en bakið verður grænleitt. Á þessu stigi er hængurinn oft kallaður rauðkóngur. Minni breytingar eiga sér stað hjá hrygnum en þær fá dökka bletti á kviðinn. Hegðun hængsins tekur einnig breytingum þar sem hann skilur sig frá torfunni og myndar sér óðal þar sem hann byggir hreiður. Þar grefur hann grunna holu í botninn sem hann fyllir uppí með þörungum, plöntuleyfum og öðru groti sem hann límir saman með slími sem nýrun gefa frá sér. Hreiðrið verndar hængurinn af fullri hörku og rekur í burtu önnur hornsíli og jafnvel aðra, mun stærri, fiska. Þegar hreiðrið er tilbúið, með inn- og útgangi, lokkar hængurinn hrygnur að hreiðrinu með tælandi dansi. Ef vel til tekst syndir hrygnan með hængnum að hreiðrinu þar sem hrygnan syndir í gegnum hreiðrið og hrygnir. Strax eftir hrygningu rekur hængurinn hrygnuna í burt, syndir sjálfur inní hreiðrið og sprautar svili og frjóvgar hrognin. Þessa hegðun endurtekur hængurinn og ef vel gengur getur hann fengið allt að sjö hrygnur til að hrygna í sama hreiðrið (Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson, 1996). Eftir að hrognin klekjast verndar hængurinn seiðinn þar til þau verða spræk og sjálfbjarga.
Hornsíli eru mikilvægur hlekkur í fæðuvef marga vistkerfa og má þar nefna Mývatn sem dæmi. Hornsíli eru þar megin uppistaðan í fæðu urriðans og sömuleiðis mikilvæg fæða bleikju. Bleikjan í Mývatni étur mest af átu en þegar lítið er um átu sækir bleikjan duglega í hornsíli. Þess má geta að hrun varð í bleikjustofni árið 1997 og á sama tíma féll holdafar silungsins og hornsíli varð óvenju stór hluti af fæðu bleikjunnar. Niðurstöður vöktunar á silungastofni Mývatns benda til að hrun varð í átustofnum Mývatns og í kjölfarið varð smærri silungurinn fyrir fæðuskorti og drapst, en stærri silungurinn gat nýtt sér hornsíli til ætis og lifði því af. Hrun varð í hornsílastofni Mývatns árið 2015 og í kjölfar þess hefur stofn urriðans minnkað og holdafar hans sömuleiðis. Samkvæmt nýjustu mælingum virðist hornsílastofn Mývatns fara stækkandi á ný og forvitnilegt verður að sjá hvernig silungastofn vatnsins bregst við í kjölfarið.
Síða uppfærð 23. júní 2021.