Hnit - 66°17'N 22°49'W
Flatarmál - 169 km2
Meðaldýpi - 70-90 m
Mesta dýpi - 105 m
Austur úr Ísafjarðardjúpi utanverðu gengur breiður flói eða fjörður sem fimm firðir kvíslast frá til norðurs, austurs og suðurs. Heita þeir einu nafni Jökulfirðir. Þeir voru friðlýstir árið 1975. Jökulfirðir bera nafn með réttu því að tveir þeirra ganga upp undir Drangajökul. Fjöll að þeim eru allhá og brött en undirlendi lítið. Mynni Jökulfjarða afmarkast af Bjarnarnúp að austan en Grænuhlíð að vestan og breidd þess um 7,4 km en mjókkar heldur er innar dregur. Mesta lengd Jökulfjarða frá mynni þeirra inn í botn Hrafnsfjarðar eru 29 km. Flatarmál þeirra með innfjörðum er 169 km2. Dýpi í mynni Jökulfjarða eru um 90 metrar og gengur áll eftir miðju fjarðarins svipaður að dýpt alveg inn undir innstu firði en þar grynnkar hratt upp á 30 til 40 metra. Aðdjúpt er mjög að ströndunum. Mesta dýpi er um miðjan fjörðinn rúmlega 100 metrar.