Hafrannsóknastofnun leggur áherslu á að vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri jafnréttisstefnu og aðstæðum þar sem árangursríkt starf og faglegur metnaður getur dafnað. Á árinu 2020 fluttu aðalstöðvar stofnunarinnar í nýtt húsnæði að Fornubúðum 5, húsnæði sem er sérstaklega hannað fyrir starfsemi stofnunarinnar og lögð mikil áhersla á starfsaðstöðu, bæði rannsóknastofur og skrifstofurými.
Fjöldi starfsmanna í árslok var 176, þar af konur 34% og karlar 66%.
Á árinu hófst vinna við innleiðingu á jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Gerð var jafnlaunastefna og uppfærð var jafnréttisstefna stofnunarinnar. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 var lögleitt með breytingum frá 2017 að fyrirtæki og stofnanir ættu að koma upp jafnlaunakerfi innan ákveðinna tímamarka og öðlast vottun byggða á jafnlaunastaðlinum. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Í lok árs fór stofnunum í gegnum vottun hjá ICert og öðlaðist vottun 28. desember.
Eins og allar opinberar stofnanir hófst vinna við útfærslu á styttingu vinnutíma á þriðja ársfjórðungi. Þeirri vinnu lauk með kosningu á fyrirkomulagi og valdi starfsfólk að stytta vinnutíma um 28 mínútur á dag.
Á árinu var farið í gegnum mikinn lærdóm vegna Covid-19 faraldursins þar sem starfsfólk þurfti að vinna stóran hluta ársins heiman frá sér í fjarvinnu. Sá lærdómur var góður og kenndi starfsfólki að nýta sér meira en áður fjarfundarbúnað eins og Teams við samskipti.
Ýmiss fræðsla stóð starfsfólki til boða á árinu. Má nefna námskeið um skilvirkni og sjálfbæra stjórnun á vegum Manino, almennt námskeið í verkefnastjórnun, verkefnisáætlunum, örnámskeið um samfélagsmiðla á vegum Athygli, fræðsluerindi um rétta líkamsbeitingu og vellíðan í vinnu á vegum Vinnuheilsu.
Hjá stofnuninni er mjög virkt starfsmannafélag sem heldur uppi virku félagslífi. Félagslífið var með óhefðbundnum hætti vegna Covid-19. Starfsmenn stofnuninnar tóku þátt í „Hjólað í vinnuna“ og vann stofunin glæsilegan sigur í flokki vinnustaða með 130-399 starfsmenn. Liðið Sjómílurnar lenti í öðru sæti í hlutfalli kílómetra og í þriðja sæti í heildarfjölda kílómetra.
Rannsóknasamstarf
Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar taka þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu starfi, enda lúta haf-og vatnarannsóknir engum landamærum. Þetta fjölbreytta samstarf fer meðal annars fram í rannsóknaverkefnum sem styrkt eru af Evrópsku Horizon 2020 rammaáætlun um rannsóknir, en stofnunin var þetta árið þátttakandi í 11 slíkum verkefnum. Þetta samstarf er mikilvægt þar sem öflugar rannsóknir eru yfirleitt þess eðlis að engin ein þjóð getur unnið þær, hvorki hvað varðar umfang né kostnað. Samhliða staðfestir góður árangur Hafrannsóknastofnunar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum stöðu vísindamanna hennar á meðal þeirra fremstu á sínu sviði.
Auk Evrópusamstarfa tók stofnunin þátt í ýmsu norrænu samstarfi þar sem vísindamenn frá Norðurlöndunum hittust, deildu þekkingu og miðluðu af reynslu í gegnum fastanefndir og styrkta viðburði.
Eins og gefur að skilja hefur Hafrannsóknastofnun, eins og alheimur allur, þurft að aðlaga sig að þeim ramma sem Covid-19 farsóttin hefur sett á alþjóðastarf og samskipti. Með nýrri tækni og lausnarmiðaðri nálgun hefur tekist að sinna flestu því aljóðastarfi sem unnið er á Hafrannsóknastofnun, þó sumt hafi gengið hægar en ella.
Háskólasamstarf
Eftir töluverðan undirbúning hófst kennsla í meistaranámi í fiskifræði og skyldum greinum haustið 2020. Námið er kennt í samstarfi Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Þar koma fjölmargir sérfræðingar stofnunarinnar að kennslu. Til þess að Hafrannsóknastofnun geti sinnt sínu lögbundna hlutverki er nauðsynlegt að viðhalda góðri menntun á þessum sviðum og eiga gott samstarf við vísindamenn sem starfa í háskólum. Árið 2020 var 21 nemi í meistara- og doktorsnámi sem tengist stofnuninni en það mun tryggja betri nýliðun á fræðasviðum hennar.
Fyrsti starfsmannafundur í matsal í Fornubúðum.