Hnit - 65°41´37´´N 21°36´11´´W
Flatarmál - 90 km2
Meðaldýpi - 80-100 m í ytri firðinum
Mesta dýpi - 168 m
Steingrímsfjörður er þriðji syðsti fjörðurinn á Ströndum. Að þessum landshluta liggur Húnaflói og gengur Steingrímsfjörður til vesturs inn úr honum innanverðum. Steingrímsfjörður er stór fjörður, sá langstærsti á Ströndum. Í norðanverðu mynni hans er eyjan Grímsey og þorpið Drangsnes.
Í mynni hans við innanverða Grímsey er hann um 7.8 km á breidd. Steingrímsfjörður liggur til vesturs inn undir miðjan fjörð. Á þessum slóðum er hann allbreiður eða 5,5 til 6 km á breidd. Nálægt kauptúninu Hólmavík mjókkar hann verulega og stefnir til norðvesturs en innsti hluti hans sveigir þaðan til vesturs inn í fjarðarbotn. Lengd Steingrímsfjarðar frá mynni inn í botn er rúmlega 24 km, eftir því hvar mynni hans er skilgreint. Flatarmál hans er um 90 km2 og strandlengja um 72 km.
Fjörðurinn er alldjúpur og gengur áll inn eftir honum þar sem dýpi er 120 til 130 metrar og reyndar er dýpi meira en 100 metrar alveg inn undir Vestuboða en meira en 80 metra dýpi er inn fyrir Reykjanes. Mesta dýpi í álnum er allt að 168 metrar á smáblettum. Fyrir innan Reykjanes grynnkar hratt og er dýpi á því svæði og inn fyrir Hólmavík 26-36 metrar. Um miðjan innri fjörðinn dýpkar á ný í 60 metra á allstóru svæði en úr því grynnist inn í fjarðarbotn þar sem er um 30 metra dýpi.
Með norðurströnd ytri hluta fjarðarins er mjög aðdjúpt og aðeins smá ræma með landi sem er með minna en 60 metra dýpi. Sunnan megin er ekki alveg eins aðdjúpt, grynnkar fyrst á 30-40 metra áður en kemur upp á grynnsta hlutann með landi. Sáralitlar opinberar dýptarmælingar liggja fyrir í innri hluta fjarðarins. Frá suðurströndinni og botni fjarðarins ganga margir dalir og falla um þá ár til sjávar. Stærstu ár í Steingrímsfirði eru Selá og Staðará.
Sérkenni á botni
Eftirfarandi frétt var birt á vefnum strandir.is haustið 2012 og síðar tekin upp á vef á Bæjarins besta (www.bb.is)
"Stykki úr svonefndum hverastrýtum kom upp úr netum hjá Guðmundi Guðmundssyni skipstjóra á Drangsensi á dögunum. Stykkið er 30-40 cm á hverja hlið, og í gegnum hann eru margar opnar rásir, 3-7 cm að hlið og þær sléttar að innan. Stykkið, sem er úr hverastrýtum, hefur brotnað úr strýtu og legið á sjávarbotninum í skamman tíma áður en hann festist í netunum".
Af stærð opanna á steinum úr Steingrímsfirði verður ekki annað ráðið en að geysimikið heitavatnsstreymi sé á þessum slóðum. Það hefur lengi verið álit jarðfræðinga sem fást við jarðhitarannsóknir að jarðhiti komi víða upp í sjó, en erfitt getur verið að finna þessa staði. Því mun það vera mikið hagsmunamál að sjómenn láti vita af slíkum stöðum ef þeir verða varir við þá.
Ekki er vitað til að þetta náttúrufyrirbæri hafi verið rannsakað nánar síðan fréttin var birt (aths. Hafsteinn Guðfinnsson líffræðingur).
Heimildir
Guðrún G. Þórarinsdóttir, Hafsteinn G. Guðfinnsson & Jón Örn Pálsson. (2015). Kræklingarækt og umhverfisaðstæður í Patreksfirði og Steingrímsfirði. Hafrannsóknir nr. 177.
Hafsteinn G. Guðfinnsson, Sólveig R. Ólafsdóttir & Jón Örn Pálsson. (2015). Svifþörungar, næringarefni og sjávarhiti í Steingrímsfirði á Ströndum, 2010-2011. Hafrannsóknir nr. 180.
Jón Örn Pálsson. (2011). Forsendur kræklingaræktar í Steingrímsfirði. Skýrsla til Rannsóknasjóðs Sjávarútvegsins. Íslenskur kræklingur ehf, september 2011. SKOR Þekkingasetur Patreksfirði, Skýrsla No 003, 25 bls.
Stefán S. Kristmannsson. (1989). Sjávarhitamælingar við strendur Íslands 1987-1988. Hafrannsóknastofnun Fjölrit nr. 17.
Stefán Kristmannsson. (1991). Sjávarhitamælingar við strendur Íslands 1989-1990. Hafrannsóknastofnun Fjölrit nr. 24.
Þorleifur Eiríksson, Cristian Gallo, Hafdís Sturlaugsdóttir og Böðvar Þórisson. Athugun á leiru við Stakkanes í botni Steingrímsfjarðar. Náttúrustofa Vestfjarða.