Það koma oft góðir gestir í höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5, en þau voru óvenju skemmtileg, hress og fróðleiksfús ungmennin frá Vopnafjarðarskóla og Háleitisskóla í Reykjanesbæ sem heimsóttu bæði höfuðborgina og Hafnarfjörðinn í tilefni af „First Lego League Challenge 2024“ keppninni sem fram fer á morgun laugardaginn 16. nóvember í Háskólabíói.
Um er að ræða alþjóðlega Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim sem er afrakstur samstarfs milli FIRST og LEGO Group sem býður börnum upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám um leið og þeim er hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem hafa má af vísindum og tækni. Svo skemmtilega vildi til að báðir skólar einbeittu sér að rannsóknum á hafi með þátttöku sinni í Lego keppninni; Vopnafjarðarskóli leitast við að hanna ný búsvæði í þrívídd fyrir kaldsjávarkórala í sínu verkefni og Háaleitiskóli er með fókus í hafdjúpin í sínu Lego verkefni. Mannauðsstjóri Hafrannsóknastofnunar bíður spenntur eftir að taka við umsóknum frá þessum efnilegu verðandi vísindamönnum eftir fáein ár eða svo!