Jakob Jakobsson. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.
Kveðja frá Hafrannsóknastofnun
Jakob Jakobsson, fiskifræðingur og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, er látinn. Hann var 89 ára gamall.
Jakob fæddist í Neskaupstað. Hann lauk B.Sc. (Hons.) prófi í fiskifræði og stærðfræði frá Háskólanum í Glasgow 1956. Sama ár hóf Jakob störf sem fiskifræðingur hjá Fiskideild Atvinnudeildar Háskóla Íslands, sem síðar varð Hafrannsóknastofnun. Hann var aðstoðarforstjóri stofnunarinnar 1975-1984 og forstjóri 1984-1998.
Jakob varð þekktur fyrir síldarrannsóknir sínar enda helsti sérfræðingur þjóðarinnar á því sviði en síldveiðar voru þá afar mikilvægar. Undir forystu Jakobs sem forstjóra efldist Hafrannsóknastofnun og gegndi stærra hlutverki með tilkomu kvótakerfisins.
Jakob varð prófessor í fiskifræði við Háskóla Íslands 1994 til 2001. Hann tók mikinn þátt í alþjóðasamstarfi um fiskveiðar og var m.a. varaforseti Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, 1985-1988 og forseti þess 1988-1991. Jakob hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1965 og síðar stórriddarakrossi árið 1986. Hann var félagi í Vísindafélagi Íslendinga.
Ég naut þeirrar gæfu að fá að vinna með Jakobi þegar ég starfaði á Hafrannsóknastofnun á árunum 1980 til 1981 þá nýútskrifaður líffræðingur. Það var gaman að kynnast Jakobi. Hann var sterkur persónuleiki og sagði skemmtilega frá. Hann gerði miklar kröfur til samstarfsmanna sinna en engu minni til sjálfs sín.
Fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar þakka ég störf Jakobs Jakobssonar í þágu stofnunarinnar og votta Margréti eiginkonu Jakobs, börnum hans og fjölskyldu innilega samúð.
Sigurður Guðjónsson