Jakob Jakobsson er látinn

Jakob Jakobsson. Ljósm. Kristinn Ingvarsson. Jakob Jakobsson. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Kveðja frá Hafrannsóknastofnun

Jakob Jak­obs­son, fiski­fræðing­ur og fyrr­ver­andi for­stjóri Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, er látinn. Hann var 89 ára gam­all.

Jakob fædd­ist í Nes­kaupstað. Hann lauk B.Sc. (Hons.) prófi í fiski­fræði og stærðfræði frá Háskól­an­um í Glasgow 1956. Sama ár hóf Jakob störf sem fiski­fræðing­ur hjá Fiski­deild Atvinnudeild­ar Há­skóla Íslands, sem síðar varð Haf­rann­sókna­stofn­un. Hann var aðstoðarforstjóri stofnun­ar­inn­ar 1975-1984 og for­stjóri 1984-1998.

Jakob varð þekkt­ur fyr­ir síldar­rann­sókn­ir sín­ar enda helsti sér­fræðing­ur þjóðar­inn­ar á því sviði en síldveiðar voru þá afar mikilvægar. Und­ir for­ystu Jakobs sem forstjóra efld­ist Haf­rann­sókna­stofn­un og gegndi stærra hlut­verki með til­komu kvóta­kerf­is­ins.

Jakob varð pró­fess­or í fiskifræði við Há­skóla Íslands 1994 til 2001. Hann tók mik­inn þátt í alþjóðasam­starfi um fisk­veiðar og var m.a. vara­for­seti Alþjóða haf­rann­sókn­aráðsins, ICES, 1985-1988 og for­seti þess 1988-1991. Jakob hlaut fjölda viðurkenn­inga fyr­ir störf sín og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1965 og síðar stórriddarakrossi árið 1986. Hann var fé­lagi í Vís­inda­fé­lagi Íslend­inga.

Ég naut þeirrar gæfu að fá að vinna með Jakobi þegar ég starfaði á Hafrannsóknastofnun á árunum 1980 til 1981 þá nýútskrifaður líffræðingur. Það var gaman að kynnast Jakobi. Hann var sterkur persónuleiki og sagði skemmtilega frá. Hann gerði miklar kröfur til samstarfsmanna sinna en engu minni til sjálfs sín.

Fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar þakka ég störf Jakobs Jakobssonar í þágu stofnunarinnar og votta Margréti eiginkonu Jakobs, börnum hans og fjölskyldu innilega samúð.

 

Sigurður Guðjónsson

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?