(English follows) Utanríkisráðuneytið, Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahaffræðinefnd UNESCO (IOC) efna til opins fundar í tilefni af útgáfu skýrslu IOC um ástand hafsins – State of the Ocean Report 2024. Fundurinn verður haldinn mánudaginn 3. júní kl. 10:00-11:15 í húsakynnum Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði og fer fram á ensku. Fundurinn er öllum opinn, einnig í fjarfundi.
Áratugur hafsins 2021-2030
Alþjóðahaffræðinefndin IOC er í forystu fyrir Áratug hafsins 2021-2030 á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem hefur það markmið að samhæfa hafrannsóknir og miðlun upplýsinga um hafið til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst heimsmarkmiði 14 um líf í vatni. Tilgangurinn með gerð skýrslunnar er að fræða stjórnvöld um ástand hafsins og efla hafrannsóknir og ákvarðanatöku í málefnum hafsins.
Yfir 100 vísindamenn frá 28 ríkjum komu að gerð skýrslunnar, sem fjallar um nýlegar hafrannsóknir, núverandi ástand hafsins og framtíðarspá, með áherslu á mengun, súrnun sjávar, breytingar á vistkerfum sjávar og eftirlits- og stjórnunarhætti þegar kemur að málefnum hafsins.
Skýrslan er gefin út með stuðningi íslenskra stjórnvalda.
Dagskrá:
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur opnunarávarp.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra flytur ávarp um mikilvægi hafsins fyrir Ísland.
Peter Thomson, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum hafsins, flytur erindi um framkvæmd heimsmarkmiðs 14 um líf í vatni.
Vidar Helgesen, framkvæmdastjóri IOC og aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO, kynnir niðurstöður skýrslunnar og lykilskilaboð hennar.
Í lokin svara höfundar skýrslunnar spurningum í gegnum fjarfundabúnað.
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, stýrir fundinum.