Sjórannsókna- og síldarleiðangur

Mynd: skip.hafro.is Mynd: skip.hafro.is

Þann 20. október sl. hófst sjórannsókna- og síldarleiðangur á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Í leiðangrinum verða gerðar mælingar á hita og seltu sjávar á rúmlega 70 stöðum umhverfis landið ásamt því að taka sýni til rannsókna á efnafræði sjávarins, m.a. súrnun sjávar. Þessar rannsóknir eru hluti af langtímavöktun á umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland.

Hægt að fylgjast með gangi leiðangursins og sjá þá staði þar sem mælingar eru gerðar, á skip.hafro.is.

Mælisniðin eru staðsett þannig að mælt er í þeim sjógerðum sem finnast umhverfis landið og þau ná yfir landgrunnið og fram yfir landgrunnsbrún. Botndýpi á stöðvunum er þannig frá 25 metrum til 1830 m.

Í seinni hluta leiðangursins verða að auki gerðar rannsóknir á íslenska sumargotssíldarstofninum. Þar er fylgst með stærð og árgangaskipan stofnsins með bergmálsmælingum og sýnatöku. Þá er ástand síldarinnar metið með tillit til Ichthyophonus sýkingar sem hefur herjað á stofninn síðan 2008.

Rannsóknasvæði þessa leiðangurs nær allt frá Austurmiðum að Reykjanesi en sá hluti stofnsins sem hefur haft vetursetu vestan við landið verður mældur í mars.

Bergmálsmælingar á fullorðna hluta síldarstofnsins og aflagögn leggja grunn að stofnmati og veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir sumargotssíld. Samfara síldarleitinni verður gerð talning, skráning og myndataka á hvölum eins og aðstæður leyfa. Þessar rannsóknir eru m.a. liður í doktorsverkefni við Háskóla Íslands sem beinist að dreifingu og fæðuatferli háhyrninga.

mynd af rannsóknum

Ljósm. Eygló Ólafsdóttir

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?