Dæmi um rusl sem fannst. Efst er trollnet sem fannst í Skeiðarárdjúpi árið 2019 flækt við kóralrif á 243 metra dýpi. Niðri til vinstri er fiskilína sem fannst á kóralsvæði í Háfadjúpi árið 2012 þakin möttuldýrum, hveldýrum, mosadýrum, svömpum, sæfíflum og burstaormum. Niðri til hægri má sjá Faxe Condi dós sem liggur meðal svampa og möttuldýra í Jökuldjúpi á 220 m dýpi.
Hingað til hefur lítið verið vitað um örlög rusls í hafinu við Ísland. Hinsvegar er algengt að sjá rusl á ströndum landsins og oft kemur rusl upp með veiðarfærum. Mikið af plasti sem endar í hafinu flýtur um, en talið er að megnið af rusli í hafinu sökkvi niður á hafsbotn og getur meðal annars haft áhrif á tegundasamsetningu og samskipti lífvera á hafsbotni.
Frá árinu 2004 hafa ýmis svæði á hafsbotni verið mynduð fyrir verkefnið Kortlagning búsvæða á hafsbotni. Verkefninu er ætlað að kortleggja mismunandi búsvæði á hafsbotni, skrá tegundir og meta verndargildi þeirra.
Fiskveiðisvæði við Suður- og Vesturland og tvö svæði norðan við landið hafa hingað til verið mynduð fyrir verkefnið. Í verkefninu eru notaðar stafrænar myndavélar á fjarstýrðum neðansjávar djúpkanna (ROV) eða þrífættri stálgrind sem er dreginn á eftir skipinu. Við úrvinnslu myndefnisins hefur rusl óhjákvæmilega fundist og það verið skráð.
Nýútgefin skýrsla Hafrannsóknastofnunar sem ber titilinn „Rusl á hafsbotni við Ísland: Samantekt á skráningu rusls við kortlagningu búsvæða á hafsbotni 2004-2019“ fer yfir dreifingu og magn rusls sem hefur fundist á hafsbotni við landið með þessum hætti.
Alls fundust 307 ruslaeiningar á 15 svæðum, allt frá önglum til trollneta. Veiðarfæri voru algengasta tegund rusls (94%) og var megnið af því fiskilína (81%). Almennt rusl eins og plastpokar, plastfilmur, áldósir o.fl. fannst sjaldnar (6%). Ef gert er ráð fyrir að fiskilínur, trollnet, reipi og bandspottar séu úr plasti þá er heildarmagn plasts sem fannst 92% af heildarruslinu. Flest nútíma veiðarfæri eru gerð úr sterkum plastefnum sem taka afar langan tíma að brotna niður. Því mun magn rusls á hafsbotni einungis aukast með tímanum.
Dreifing rusls sem fannst í myndefninu skipt niður eftir hópum (Fiskveiðibúnaður og almennt rusl). Stærð punktanna er meiri eftir fjölda ruslaeininga.
Hingað til hefur aðeins brotabrot af hafsbotni innan efnahagslögsögu Íslands verið myndað en ljóst er að myndirnar gefa dýrmæta sýn á ástandið á hafsbotninum. Hinsvegar er greinilegt að mynda þarf fleiri svæði á hafsbotni og kanna betur hvar rusl er að finna í kringum landið. Það þarf einnig að reyna að takmarka magn rusls sem endar í hafinu og passa upp á viðkvæm búsvæði svo eyðilegging af mannavöldum verði ekki meiri en raun ber vitni. Þar til búið er að finna lausnir við þessu mikla vandamáli sem manngert rusl er, þá mun það áfram safnast í miklu magni í hafinu ef ekkert breytist.
Að lokum viljum við minna á að átakið plastlaus september er nú í gangi og eru allir hvattir til að kynna sér leiðir til að takmarka magn einnota plasts í sínu daglegu lífi. Frekari upplýsingar má finna á https://plastlausseptember.is
Hlekkur á nýútkomna grein.