Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.
Nýlega komu út tvær greinar um meðafla sjávarspendýra þar sem tveir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Guðjón Már Sigurðsson og Gísli Víkingsson voru á meðal höfunda.
Í þeirri fyrri sem kom út í tímaritinu Fisheries Research (Assessing pinniped bycatch mortality with uncertainty in abundance and post-release mortality: A case study from Chile) voru fiskveiðar og áhrif þeirra á sela- og sæljónastofna í Chile notaðir sem sýnidæmi um aðferðafræði sem hægt er að nota í tilfellum þar sem upplýsingar um meðafla spendýra eru takmarkaðar og óvissa er um dánartíðni þeirra dýra sem ánetjast en er sleppt aftur.
Í seinni greininni Can we manage marine mammal bycatch effectively in low‐data environments? sem kom út í tímaritinu Journal of Applied Ecology voru aðferðir sem beitt hefur verið við mat á fiskistofnum með takmörkuð gögn (data limited) yfirfærðar á stofna sjávarspendýra. Þessar aðferðir ættu að gagnast þjóðum sem eiga takmörkuð gögn um stofnstærðir og meðafla sjávarspendýra á sínu hafsvæði, en þurfa samt sem áður að uppfylla ströng ný skilyrði Bandaríkjanna um að allar sjávarafurðir sem þangað séu fluttur skaði ekki sjávarspendýrastofna.
Þessar greinar, auk tveggja annara greina, eru hluti af stærra verkefni styrkt af Lenfest Ocean Program, þar sem markmiðið er að útbúa aðferðir og tól fyrir þjóðir sem þurfa að uppfylla þessi nýju skilyrði Bandaríkjanna um innflutning sjávarafurða.