Mynd. Líklegar hindranir á flæði gena hjá leturhumri (Metið með skóþvengs aðferð).
Nýlega birtist grein í tímaritinu „Journal of Sea Research“ um stofnerfðafræði leturhumars sem ber heitið „Microsatellites obtained using high throughput sequencing and a novel microsatellite genotyping method reveals population genetic structure in Norway Lobster, Nephrops norvegicus“. Jónas Páll Jónasson sérfræðingur á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar er einn meðhöfunda.
Leturhumarinn er mikilvæg nytjategund í Evrópu, en um 60 þús. tonnum er landað árlega og er veiðum stjórnað á um 40 aðskildum svæðum frá Miðjarðarhafi norður til Íslands. Í greininni var stofngerð leturhumars metin með nýstárlegum aðferðum sem raðgreindu DNA-örtungl.
Niðurstöður sýndu að minnsta kosti fjögur erfðafræðilega aðgreind svæði leturhumars og að nokkuð misræmi er á milli fjölda stofna og stjórnunarsvæða. Enginn erfðafræðilegur munur var á milli humra í Breiðamerkurdjúpi suðaustur af Íslandi og humra á Porcupine Banka djúpt vestur af Írlandi. Þessir stofnar ásamt öðrum stofnum við Írland voru hins vegar aðgreindir frá stofnum bæði í Norðursjó og suðlægari svæðum. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem er t.d. vitað um rek skötusels frá suðlægari slóðum (Sólmundsson et al. 2010) og eldri rannsókn á stofngerð humars við Ísland (Pampoulie et al., 2011) sem greindu ekki mun milli svæða innan Íslands og nálægra landa.
Hlekkur á greinina