Meðferð upplýsinga um stærð loðnustofnsins

Meðferð upplýsinga um stærð loðnustofnsins

Í frétt í Kjarnanum þann 14. febrúar kemur fram „að samkvæmt heimildum Kjarnans hefur töluvert verið rætt um það á markaði í dag, á meðal starfsmanna á fjármálamarkaði, hvort upplýsingar um þessa miklu aukningu loðnukvótans, hafi borist til einhverra áður en tilkynning kom fram.  Þar er vísað til þess að gengi hlutabréfa í HB Granda hafi hækkað umtalsvert frá 8. febrúar síðastliðnum.
 
Loðnustofninn var mældur í leiðangri 11.-20. janúar og að honum loknum var ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar birt þann 25. janúar, sem samkvæmt aflareglu var veiði upp á 57.000 tonn. Aftur var farið til mælinga sem stóðu 3.-11. febrúar. Þeir fjölmörgu sem áhuga hafa á gangi leiðangra stofnunarinnar geta fylgst vel með staðsetningu skipa á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.  Þannig mátti fylgjast með gangi loðnumælinga nú í febrúar, þ.e. leiðangri rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar (sem að mestu var þó í öðru verkefni) ásamt uppsjávarskipinu Polar Amaroq.  Jafnframt var fjallað um framgang leiðangursins í fjölmiðlum í síðustu viku þó þar hafi hvergi komið fram að kvótaaukning væri í vændum.  Auk viðtala við starfsmenn Hafrannsóknastofnunar voru birtar mjög jákvæðar fréttir af gangi loðnuveiða erlendra skipa og löndunum þeirra á sama tíma, en þau höfðu rétt til veiða samkvæmt samningum og útgáfu kvóta eftir mælingarnar í janúar.
 
Þegar leiðangri lauk þann 11. febrúar var fyrst hægt að vinna með mælingargögn og leggja mat á stærð stofnsins en sú vinna var unnin af litlum hópi sérfræðinga.  Að því loknu voru gerðir framreikningar á grundvelli gildandi aflareglu og fundað um niðurstöðurnar í ráðgjafarnefnd stofnunarinnar.  Skrifaðar voru skýrslur, fréttatilkynningar gerðar og ráðgjöf kynnt stjórnvöldum um 40 mínútum áður en frétt fór inn á vef Hafrannsóknastofnunar þann 14. febrúar.  Í vinnuferlinu var þess gætt í hvívetna að upplýsingar um stofnmælingu og ráðgjöfina væru ekki aðgengilegar þeim sem ekki komu með beinum hætti að vinnunni.
 
Það er ljóst að á hverjum tíma hafa nokkrir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar upplýsingar sem geta varðað þjóðarhag, og hag margra fyrirtækja og einstaklinga. Hafrannsóknastofnun hefur lagt á það áherslu að þagmælsku sé gætt á öllum stigum vinnu með slík gögn uns slíkar upplýsingar hafa verið gerðar opinberar. Þessi vinnubrögð hefur stofnunin viðhaft og þess vegna ríkir ávallt leynd yfir því hver stærð loðnustofnsins er þar til að fréttatilkynning hefur verið send út til fjölmiðla um stofnstærð og  aflaráðgjöf.
 
Eftir frétt Kjarnans var farið yfir málið með þeim starfsmönnum sem vitneskju höfðu um mælingarnar og framgang loðnuleiðangursins dagana áður en niðurstöður voru birtar. Engin ástæða er til að ætla að nokkur starfsmaður stofnunarinnar hafi brotið þann trúnað sem krafist er af þeim.
 
Sigurður Guðjónsson, forstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?