Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar fiskveiðiárið 2024/2025.
Þessi ráðgjöf er samhljóma fyrirliggjandi upphafsráðgjöf sem byggði á mælingum á ungloðnu haustið 2023. Ráðgjöfin verður endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2025.
Ráðgjöfin byggir á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Tarajoq og veiðiskipinu Polar Ammassak á tímabilinu 21. ágúst til 1. október (Mynd 1, sjá neðar).
Leiðangurinn er talinn hafa náð yfir útbreiðslusvæði stofnsins. Loðnan var nokkuð jafndreifð á svæðinu og mælingin hennar hafði fremur lágan breytistuðul.
Heildarmagn loðnu mældist tæp 610 þúsund tonn og þar af var stærð veiðistofns metin 307 þúsund tonn. Þegar tekið hefur verið tillit til metins afráns fram að hrygningu í mars er metið að hrygningarstofninn verði 193 þúsund tonn. Markmið aflareglu er að miða heildarafla við að meira en 95% líkur séu á að hrygningarstofn verði yfir viðmiðunarmörkum upp á 114 þúsund tonn á hrygningartíma. Það mun ekki nást samkvæmt niðurstöðum stofnmatsins og því er gefin ráðgjöf um engar veiðar á þessu fiskveiðiári. Magn ókynþroska í fjölda var um 57 milljarðar en samkvæmt samþykktri aflareglu þarf yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fyrir næsta fiskveiðiár (2025/2026) en Alþjóðahafrannsóknaráðið mun gefa ráðgjöf þar að lútandi í júní á næsta ári.
Gert er ráð fyrir að farið verði til hefðbundna mælinga á loðnustofninum í janúar 2025 og ráðgjöfin endurmetin að þeim loknum.
Mynd 1. Leiðangurslínur r/s Tarajoq (bláar), f/s Polar Ammassak (rauðar) og r/s Árna Friðrikssonar (grænar) í ágúst - september 2024 ásamt dreifingu loðnu samkvæmt bergmálsgildum.
Loðnuráðgjöfina má nálgast hér, tækniskýrslu hér og leiðangursskýrslu (á ensku) hér.