Loðnulirfur 39 dögum eftir klak. Þrjár stærstu lirfurnar eru um það bil 21 mm að lengd en sú minnsta er 16 mm. Stærri lirfurnar nærast á artemia (saltvatnsrækju), en minnstu lirfurnar nærast á hjóldýrum.
Vísindamenn á tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar hafa í fyrsta sinn ræktað loðnu frá klaki til fullorðinsaldurs í eldisumhverfi. Loðnuhrogn voru frjóvguð um borð í uppsjávarskipinu Víkingur AK 100 og flutt þaðan í tilraunaeldisstöðina á Stað við Grindavík, þar sem lirfurnar klöktust út 30 dögum síðar.
Umtalsvert styttri tími til að ná í hámarkslengd í eldi
Ræktun loðnulirfanna byggðist á eldisaðferðum sem hafa verið þróaðar í eldisstöðinni til eldis á þorski með góðum árangri. Við stöðugt hitastig (7°C) var vöxtur loðnunnar jafn og ör, og fyrstu loðnurnar náðu kynþroska aðeins ári frá klaki. Á öðru ári dró úr vexti, og loðnan náði hámarkslengd, 18,4 cm, á aðeins 2,6 árum, sem er umtalsvert skemmri tími en hjá villtri íslenskri loðnu.
Þessi rannsókn veitir mikilvæga innsýn í vaxtarfræði og líffræði þessarar mikilvægu tegundar og leggur grunn að frekari loðnurannsóknum í tilraunaumhverfi. Þrátt fyrir að loðnan sé afar viðkvæm fyrir meðhöndlun gerir stuttur líftími hennar hana að efnilegu tilraunadýri.
Frekari loðnurannsóknir eru nú í framkvæmd í tilraunaeldisstöðinni, og búist er við að niðurstöður þeirra verði birtar á komandi árum.
Grein um rannsóknina, sem nýlega var birt "Cultivation and Growth Dynamic (Mallotus villosus) from Hatch to Adulthood", má nálgast hér.
YouTube myndband sem gefur innsýn í eldisferilinn má sjá hér.