Ástand vistkerfis og fiskistofna í Noregshafi

Mynd: ICES Mynd: ICES

Nýlega kom út ársskýrsla vinnuhóps innan vébanda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem hefur það markmið að rannsaka vistkerfi Noregshafs og þróa aðferðir fyrir vistfræðilega stjórnun á nýtingu hafsvæðisins. Skýrslan inniheldur meðal annars stutta samantekt á núverandi ástandi vistkerfisins, þar á meðal fiskistofna, ásamt lýsingu á langtímasveiflum og umræðu um ástæður og áhrif breytinga. Samantektin er sérstaklega skrifuð fyrir þá sem vinna ekki við vísindi en hafa áhuga á vistkerfi Noregshafs.

Það markverðasta um ástand vistkerfis Noregshafs síðustu ár er eftirfarandi:

  • Ólíkt síðustu 3-4 árum einkenndist innflæði Atlantssjávar inn í Noregshaf ekki af tiltölulega köldum og seltuminni sjó. Hlutfall pólsjávar heldur áfram að aukast í Noregshafi.
  • Árleg frumframleiðni var meiri og vorblóminn varði lengur fyrir tímabilið 2013-2020 samanborið við árin 2003 til 2012. Mögulegt hefur aukið innflæði af pólsjó jákvæð áhrif á frumframleiðni.
  • Lífmassi dýrasvifs, að vorlagi, minnkaði upp úr 2005 og hefur verið lágur síðan samanborið við tímabilið 1995-2004.
  • Lífmassi norsk-íslenskrar síldar jókst árið 2021 vegna sterks 2016 árgangs sem gekk inn í hrygningarstofninn. Lífmassi makríls og kolmunna hélt áfram að minnka eins og undanfarin ár. Kolmunnaárgangar frá árunum 2020 og 2021 eru stærri en þrír síðustu árgangar þar á undan.
  • Sjófuglum sem verpa við strönd Noregs hefur fækkað mikið síðan talningar hófust árið 1980. Langvía er í mikilli útrýmingarhættu sem varpfugl við strendur Noregs.

Hlekkur á samantekt á ástandi Noregshafs.

Ársskýrsluna má nálgast á heimasíðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins: https://doi.org/10.17895/ices.pub.19643271

Vinnuhópurinn kallast „Working Group on Integrated Ecosystem Assessments for the Norwegian Sea (WGINOR)” og það má sjá nánari upplýsingar um rannsóknir hópsins á vef ICES. Vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun taka virkan þátt í starfi WGINOR og er Anna Heiða Ólafsdóttir annar af tveimur formönnum hópsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?