Samstarfssamningur undirritaður

Frá vinstri: Guðmundur Þórðarson, Finnur Árnason, Þorsteinn Sigurðsson og María Maack. 
Ljósm. Svan… Frá vinstri: Guðmundur Þórðarson, Finnur Árnason, Þorsteinn Sigurðsson og María Maack.
Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Þann 4. febrúar síðastliðinn rituðu fyrir hönd Þörungamiðstöðvar Íslands Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. annars vegar, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatns hins vegar undir viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og vöktun þörunga í vistkerfi Breiðafjarðar.

Tilgangur samstarfsins er að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun einkum úr þangi og þara og sýna með rannsóknum að þessi sjávarauðlind sé nýtt á sjálfbæran hátt.

Þörungamiðstöð Íslands í samstarfi við atvinnulífið, háskóla og rannsóknastofnanir er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu sem hvílir á niðurstöðum rannsókna, verða þekkingarmiðstöð auðlindarinnar og efla fjölbreytta fræðslu.

Sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun hafa rannsakað grunnsævi Breiðafjarðar, og gefið út skýrslur um ástand, vöxt og þéttleika þangs og þara í Breiðafirði. Karl Gunnarsson er ótvíræður frumkvöðull þeirra rannsókna en nú eru að verða kynslóðaskipti.

Hafrannsóknastofnun gaf út fyrstu ráðgjöf um klóþang í Breiðafirði árið 2017 og byggist hún á mati stofnunarinnar á heildarlífmassa fjarðarins. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök. Stofnunin fagnar tækifæra til samstarfs um rannsóknir á þessari auðlind.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?