Rekdufl við yfirborð sjávar

Magnús Danielsen og Jacek Sliwinski, sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar. Ljósm. Hafrannsóknastofnun Magnús Danielsen og Jacek Sliwinski, sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar. Ljósm. Hafrannsóknastofnun

Hafrannsóknastofnun ásamt Veðurstofunni, Háskóla Íslands og Landhelgisgæslunni taka þátt í samstarfsverkefni með bandarískum vísindamönnum m.a. við Scripps hafrannsóknastofnunina við háskólann í San Diego, en þau leiða vísindahluta verkefnisins. Rekdufl sem eru sjósett í leiðöngrum stofnunarinnar safna gögnum við yfirborð hafsins en þau eru hluti af stórum flota af rekduflum. Í leiðangri í febrúar var farið langt suður af landinu til að sjósetja þar 23 dufl auk 14 annarra sem sett voru út á mælistöðvum Hafrannsóknastofnunar (mynd 1) en árið á undan voru 21 dufl sjósett í nokkrum leiðöngrum. Rekduflin eru mismunandi gerðar og mæla ekki öll það sama, meðal mælistærða eru loftþrýstingur, yfirborðshiti sjávar, ölduhæð og tíðni öldu. Rekduflin senda gögn í rauntíma og er hægt að skoða staðsetningu þeirra, farleið og gögnin sem þau senda á vefsíðunni: https://gdp.ucsd.edu/apps/projects/noaa/global-drifter-program.html

Dæmi um farleiðir þriggja rekdufla frá sjósetningu þeirra í febrúar er á mynd 2.

kort af virkum yfirborðsduflum í arpíl 2021

Mynd 1. Staðsetningar virkra yfirborðsrekdufla umhverfis Ísland í apríl 2021. Flest voru sjósett djúpt suður af landinu á þessu ári. Mismunandi litir á táknum gefa til kynna þá mælinema sem rekduflin hafa.

kort af farleiðum þriggja rekdufla

Mynd 2. Farleiðir þriggja rekdufla frá því að þau voru sjósett austan og vestan landsins í febrúar 2021.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?