Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir
Sumarið 2020 var skráð stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 45.124 laxar. Af þeim var 22,327 (49,5%) sleppt aftur og var heildarfjöldi landaðra laxa því 22.797 (50,5%). Af veiddum löxum voru 36.022 laxar með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (79,8) og 9.102 (20,2%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar). Alls var þyngd landaðra laxa (afla) í stangveiði 63.548 kg. Afli í stangveiðinni skiptist þannig að 20.426 laxar voru smálaxar, alls 51.867 kg og 2.371 stórlaxar sem voru 11.678 kg. Af þeim löxum sem sleppt var aftur voru 15.596 (69,8%) smálaxar og 6.731 (30,2%) stórlaxar.
Fimm veiðihæstu laxveiðiárnar voru, Eystri-Rangá með 9.076 laxa, Ytri–Rangá og Hólsá Vesturbakki með 2.642 laxa, Affall í A-Landeyjum 1.729, Miðfjarðará 1.725 laxa og Selá í Vopnafirði 1.258 laxa. Heildarafli landaðra laxa í stangveiði og netaveiði samanlagt var 50.876 laxar sem vógu alls 79.275 kg. Af þeim voru 25.785 smálaxar og 4.191 stórlaxar. Þyngd smálaxa var 62.567 kg og þyngd stórlaxa 16.704 kg.
Alls voru skráðir 39.755 urriðar/sjóbirtingar í stangveiði sumarið 2020 en hlutfall urriða sem var sleppt var 33,2%. Afli urriða var 26.537 fiskar (66,8%) sem vógu samtals 33.528 kg. Af urriðaveiðisvæðum landsins þar sem stangveiði var stunduð, veiddust eins og áður flestir urriðar í Veiðivötnum, alls 8.060 urriðar en það var minni veiði en árið áður. Í Laxá í Þingeyjasýslu ofan Brúa veiddust 2.601 urriðar og í Fremri Laxá á Ásum var urriðaveiðin 2.556, Vatnsdalsá var með 1.752 urriða, Ölfusá með 1.528. Auk þessara fimm voru fjórar ár/vötn með yfir 1.000 skráða urriða, í öðrum ám og vötnum var skráð minni veiði.
Alls voru skráðar 30.400 veiddar bleikjur/sjóbleikjur í stangveiði en hlutfall bleikju sem var sleppt var 18,4 % en það var það sama og árið áður og var fjöldi bleikja í afla 24.814 (81,6%). Fimm hæstu veiðistaðir fyrir bleikju voru Veiðivötn með 9.656 bleikjur, Hlíðarvatn í Selvogi með 2.465 bleikjur, vötn sunnan Tungnaár með 1.602 bleikjur, Hólaá/Laugarvatn með 1.248 bleikjur og Fljótaá 1.188 bleikjur. Tvær aðrar ár/vötn voru með yfir 1.000 skráðar bleikjur.
Sumarið 2020 bar ekki mikið á hnúðlöxum í ám hér á landi eins og árið 2019. Meira er af hnúðlaxi þegar ártalið stendur á oddatölu en jafnari tölu. Mikilvægt er að veiðimenn skrái einnig veiði á hnúðlöxum, þar sem búast má við auknum fjölda hnúðlaxa sumarið 2021 og mikilvægt að fá sýni af veiddum hnúðlöxum til rannsókna. Einnig er mikilvægt að skrá ef veiðist eldislax og koma sýnum af fiskum til erfðagreiningar hjá Hafrannsóknastofnun.
Samantekt veiðinnar byggist á veiði sem skráð er í veiðibækur. Veiðifélög/veiðiréttarhafar bera ábyrgð á skráningu veiði skv. lögum. Hafrannsóknastofnun annast samantekt veiðitalna og skráningu í rafrænan gagnagrunn í umboði Fiskistofu.
Smelltu til að lesa skýrslu.