Ný grein um breytingar á sjógerðum í Íslandshafi

RS Bjarni Sæmundsson. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir. RS Bjarni Sæmundsson. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Nýlega birtist grein í tímaritinu „Deep-Sea Research Part I”, um breytingar á sjógerðum í Íslandshafi, sem ber heitið „Water mass transformation in the Iceland Sea: Contrasting two winters separated by four decades“. Steingrímur Jónsson, sérfræðingur á Umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar og prófessor við Háskólann á Akureyri er einn höfunda greinarinnar.

Djúpsjór með háan eðlismassa sem myndast í höfunum norðan við Grænlands – Skotlands hrygginn að vetrarlagi flæðir yfir hrygginn og streymir þar til suðurs. Eftir umfangsmiklar mælingar á sjógerðum að vetrarlagi í Íslandshafi 1974-1975 kom í ljós að djúpsjór myndaðist þar, sem síðan flæddi út um Grænlandssund. Það var ekki fyrr en veturinn 2015-2016 sem aftur voru gerðar sambærilegar mælingar sem í greininni eru bornar saman við fyrri mælingar. Í bæði skiptin var rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í lykilhlutverki.

Stærsti hluti djúpsjávar sem myndast í Íslandshafi streymir út um Grænlandssund með hafstraum sem hefur verið nefndur North Icelandic Jet (NIJ) en þessi straumur uppgötvaðist ekki fyrr en um síðustu aldamót. Á milli þessara fjögurra áratuga hafa orðið verulegar breytingar á sjógerðunum og hefur eðlisþyngdin í yfirborðslögunum í miðhluta Íslandshafs minnkað samfara minni varmaflutningi frá hafinu til andrúmsloftsins. Þetta hefur dregið úr magni djúpsjávar til NIJ. Á móti kemur að sjórinn í vesturhluta Íslandshafs þar sem nú er oft íslaust getur kólnað meira og eðlisþyngd hans aukist meira en áður og myndað sjó sem er nægilega þungur til að verða að djúpsjó. Breytingarnar sem orðið hafa, hafa leitt til breytinga á framlagi Íslandshafs til djúpsjávarmyndunar norðan Grænlands – Skotlands hryggjarins.

Hlekkur á greinina: https://doi.org/10.1016/j.dsr.2022.103824

 

.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?