Loðnumælingar framundan

Útbreiðsla loðnu samkvæmt könnun á Polar Amoroq 20.-25. nóvember. Á eystri hlutanum var hrygningarlo… Útbreiðsla loðnu samkvæmt könnun á Polar Amoroq 20.-25. nóvember. Á eystri hlutanum var hrygningarloðna en blönduð hrygningar- og ungloðna vestan til.

Ráðgert er að halda til loðnumælinga um næstu helgi á fjórum veiðiskipum. Mælingarnar eru samstarfsverkefni SFS, Hafrannsóknastofnunar og loðnuútgerða, og kostaðar af þeim síðastnefndu því mælingar í desember voru ekki á rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunar.

Niðurstöður loðnukönnunar á grænlenska uppsjávarveiðiskipinu Polar Amaroq sem lauk í síðustu viku sýndu austlægari útbreiðslu loðnu en síðustu ár á þessum árstíma (mynd). Það gæti mögulega þýtt að loðnan gangi fyrr suður fyrir land til hrygningar en undanfarin ár. Það, ásamt þeirri staðreynd að óvissa ríkir enn um hvort loðnuveiðar verði leyfðar í vetur, gefur tilefni til að reyna að ná mælingu á stærð stofnsins á þessum tímapunkti.

Skipin sem munu taka þátt í fyrirhuguðum mælingum eru Kap, Jóna Eðvaldsdóttir, Ásgrímur Halldórsson og grænlenska skipið Iivid. Þrír sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun verða um borð í hverju skipi. Áætlað er að skipin fari til mælinga um komandi helgi og verða við mælingar í allt að sex daga.

Þessi leiðangur nú breytir ekki áður kynntum áformum Hafrannsóknastofnunar um stofnmælingar á loðnu í vetur. Í þeim er gert ráð fyrir að rannsóknarskipið Árni Friðriksson fari í könnun í byrjun janúar. Í framhaldi af því er ráðgert að fara í tvær mælingar á stærð stofnsins á tímabilinu frá 15. janúar til loka febrúars. Í gangi er útboð um leigu á fjórum veiðiskipum fyrir Hafrannsóknastofnun í þessar mælingar, í samvinnu við Ríkiskaup. Gert er ráð fyrir samtals um 50 sjódögum ásamt 38 dögum á Árna Friðrikssyni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?