Líf, straumar og botnlag í Grænlandssundi

Griparmur á Ægi 6000 með “sveppakóral” (Anthomastinae) Griparmur á Ægi 6000 með “sveppakóral” (Anthomastinae)

Þann 1. til 10. ágúst fór vísindafólk frá Hafrannsóknastofnun, Greenland Natural Resources (GINR) og Zoological Society í London (ZSL) í rannsóknaleiðangur á norska rannsóknaskipinu G. O. Sars. Leiðangurinn var hluti af verkefninu BENCHMARK en markmið þess er að rannsaka vistkerfi hafsbotnsins í Grænlandssundi. Leiðangurinn var styrktur af Eurofleets+ Evrópusjóðnum ásamt framlagi þeirra stofnana sem tóku þátt, leiðangursstjóri var Julian Burgos frá Hafrannsóknastofnun.

Í Grænlandssundi mætir hlýr Norður Atlantshafssstjórinn köldum sjó frá Norðurslóðum. Innan svæðisins er mikill breytileiki í botnhita, straumhraða og botngerð sem hefur áhrif á samsetningu lífríkis á botninum. Í leiðangrinum var notaður ómannaður kafbátur (ROV) sem kallast Ægir 6000. Með honum var video- og ljósmyndaefni safnað með HD myndavélum. Sérstakur griparmur er á Ægi sem var notaður til að safna völdum lífverum til frekari greininga. Kafað var á 28 stöðvum, bæði innan íslenskrar og grænlenskrar lögsögu. Mikill fjölbreytileiki svampa, kórala og annarra botndýra sást. Í flestum tilfellum er þetta fyrsta myndefni sem safnað hefur verið neðansjávar af þessum slóðum. Tveim köfunum var streymt beint á samfélagsmiðla. Mælingar á straumum, seltu, hita og kolefni fóru fram og fjölgeislamælingar á botninum voru gerðar á þeim stöðvum þar sem slík gögn voru ekki fyrirliggjandi. Þær upplýsingar sem fást úr leiðangrinum munu varpa ljósi á auka skilning okkar á vistkerfi Grænlandssunds og eru góð undirstaða fyrir frekari rannsóknir á mögulegum breytingum og einnig til að meta verndargildi svæðisins.

yfirlitsmynd af rannsóknasvæði

Kort sem sýnir staðsetningu þeirra 28 stöðva sem teknar voru.

hópmynd

Rannsóknarfólk ásamt stjórnendum Ægis.

mynd af kafbát
Ægir á leið í köfun.

mynd af sýnishorni

Sýnishorn af lífríki botnsins. Svampur án nafns.

 

 

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?