Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.
Hafrannsóknastofnun hefur tekið saman helstu niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi en leiðangurinn fór fram dagana 4. október til 3. nóvember 2021. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.
Stofnvísitala þorsks samkvæmt haustmælingu hefur lækkað töluvert frá árinu 2017 þegar hún mældist sú hæsta frá upphafi haustmælingarinnar og er nú svipuð því sem hún var árin 2008-2009. Lægri vísitala í ár stafar af því að minna fékkst af 35-75 cm þorski. Stofnvísitala ýsu hefur farið hækkandi frá 2017 en vísitala ufsa hefur farið lækkandi frá árinu 2018. Vísitala gullkarfa var svipuð og í fyrra eftir lækkun fyrri ára. Vísitala djúpkarfa sýndi jákvæða þróun en vísitölur grálúðu og blálöngu breyttust lítið miðað við nokkur fyrri ár og eru undir meðaltali tímabilsins. Vísitala gulllax hækkaði og er sú hæsta sem mælst hefur í haustralli. Stofnar hlýra, tindaskötu, sandkola, langlúru, þykkvalúru, skrápflúru og hrognkelsis eru í sögulegu lágmarki.
Árgangar þorsks frá 2020 og 2021 mældust rétt um meðalstærð. Nýliðun gullkarfa, djúpkarfa og blálöngu hefur verið léleg undanfarin ár. Vísitala nýliðunar grálúðu er enn lág og undir meðaltali tímabilsins þrátt fyrir hækkandi gildi undanfarin tvö ár.
Fæða þorsks var fjölbreytt en magn loðnu, rækju og ísrækju í mögum þorsks hefur minnkað á síðari árum. Á haustin eru ýmis botndýr algengasta fæða ýsu en meira var nú af síli í mögum ýsu en sést hefur frá árinu 2007.
Magn flestra brjóskfiska minnkaði eða stóð í stað frá fyrra ári. Vísitölur margra djúpfiskategunda sem er að mestu að finna í hlýja sjónum suðvestur og vestur af landinu stóðu í stað eða lækkuðu miðað við nokkur fyrri ár og stofn slétthala hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin þrjú ár.
Hlekkur á skýrslu: Stofnmæling botnfiska að haustlagi 2021. Framkvæmd og helstu niðurstöður.