Rækja. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 3. febrúar nk. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2021.
Stjórn sjóðsins hefur valið sex öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.
Í hópi öndvegisverkefna á Hafrannsóknastofnun aðkomu að verkefninu: Stýring ljósvörpu við rækjuveiðar.
"Botnvörpur eru veiðarfæri sem mikið eru notuð á Íslandsmiðum og um heim allan til botnfisk-, rækju- og humarveiða. Þær eru dregnar með hafsbotninum sem getur valdið umtalsverðu tjóni á lífríkinu þar og eyðsla eldsneytis er mikil þar sem mikið viðnám er við hafsbotninn. Ljósvarpan frá Optitog er nýtt veiðarfæri sem svífur rétt yfir hafsbotninum og smalar fengnum í netpokann með ljósum. Með þessari aðferð helst hafsbotninn ósnertur og minna viðnám við botn leiðir til minni eyðslu eldsneytis og því minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Hafsbotninn er hvorki flatur né sléttur og þarf ljósvarpan því að geta fylgt botninum og veitt í hallandi landslagi. Skoðaðar voru leiðir til þess að auka getu ljósvörpunnar til að vinna í hliðarhalla meðal annars með því prófa mismunandi uppsetningar á togvírum og sérstökum hæðarstýrum í straumtanki. Einnig var kannað hvernig best væri að minnka stærð stýrihylkis ljósvörpunnar og gera það meðfærilegra.
Tilraunir á veiðarfæralíkönum í straumtanki gáfu skýra sýn á hegðun ljósvörpunnar við þær aðstæður sem hún mun verða notuð við. Sýnt var fram á að með breytingum á uppsetningum á togvírum gæti ljósvarpan hallað meira og verið fljótari að snúa sér til að fylgja halla botnsins. Auk þess var sýnt fram á að lögun og staðsetning hæðarstýra hefur umtalsverð áhrif til að auka vægi þeirra. Ásamt því kom í ljós að með nýjum búnaði og þrívíddarprentuðum festingum væri hægt að minnka og létta stýrihylki ljósvörpunnar töluvert. Niðurstöður verkefnisins nýttust við prófanir á frumgerð af ljósvörpu í sjó í desember 2021 og munu nýtast í áframhaldandi prófunum.
Verkefnið var unnið með leiðsögn Optitogs, Háskólans í Reykjavík og Hafrannsóknastofnunar" (úr frétt rannis.is).
Eins og áður segir fer athöfnin fram á Bessastöðum 3. febrúar nk. og verður þá tilkynnt hvaða verkefni verður fyrir valinu. Á verðlaunahátíðinni verður tekið mið af þeim sóttvarnarreglum sem nú eru í gildi.