Flæði koldíoxíðs milli lofts og sjávar

Tæki til að mæla hlutþrýsting koldíoxíðs við yfirborð sjávar á siglingaleið skips flutt um borð í ra… Tæki til að mæla hlutþrýsting koldíoxíðs við yfirborð sjávar á siglingaleið skips flutt um borð í rannsóknaskipið Bjarna Sæmundsson. Ljósm. Alice Benoit-Cattin.

Nýlega kom út grein í tímaritinu Biogeosciences um flæði koldíoxíðs milli andrúmslofts og sjávar við Ísland. Greinin byggir á langtímagögnum Hafrannsóknastofnunar og er Jón Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands fyrsti höfundur greinarinnar. Sólveig R. Ólafsdóttir og Magnús Danielsen hjá Hafrannsóknastofnun eru meðal höfunda en Jón starfaði á stofnuninni nær allan sinn starfsferil og lagði grunninn að rannsóknum á karbónatkerfi sjávar hér á landi.

Í greininni er metið flæði koldíoxíðs í mismunandi sjógerðum við landið og breytileiki þess yfir árið og síðustu áratugi.

Norður-Atlantshafið fyrir norðan 50°N er eitt þeirra svæða í heimshöfunum þar sem hafið tekur hvað mest upp af koldíoxíði á flatareiningu. Við Ísland mætast ólíkar sjógerðir, fremur hlýr og saltur Atlantssjór og kaldari, seltuminni sjógerðir sem koma norðan úr höfum. Mælingarnar á flæði koldíoxíðs milli lofts og sjávar sem lýst er í greininni ná yfir langt tímabil og niðurstöðurnar benda til þess að pólsjór og svalsjór taki upp sérlega mikið koldíoxíð úr andrúmsloftinu, en stærðargráðunni á upptöku þessara sjógerða á koldíoxíði á ársgrundvelli hefur ekki verið lýst áður.

Atlantssjórinn hér við land er hins vegar veikur svelgur (sink), þ.e. tekur upp lítið af koldíoxíði, eða er nærri hlutlaus á ársgrundvelli. Pólssjávar og svalsjávar svæðin norðan Íslands eru undirmettuð af koldíoxíði allt árið og taka því í sífellu upp koldíoxíð. Sú upptaka er það mikil að hún er umtalsverður hluti af upptöku N-Atlantshafs norðan 50°N þrátt fyrir að flatarmál svæðanna þar sem þessar sjógerðir eru sé hlutfallslega lítið. Undirmettunin stafar helst af efnaeiginleikum sjávarins sem eiga rætur að rekja til stórfljótanna sem falla til Íshafsins og hafísmyndun og -bráðnunar. Þær hröðu breytingar sem nú eru á heimskautasvæðunum vegna hlýnunar ná til efnajafnvægja í sjó Íshafsins og tengjast nú áleitnum spurningum um framtíðarþróun koldíoxíðupptöku N-Atlantshafsins.

Tengill á grein.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?