Mynd: Leivur Janus Hansen
Agnes-Katharina Kreiling (Kera) varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands þann 19. október 2020. Kera hefur starfað á Ferskvatnssviði Hafrannsóknastofnunar síðastliðið ár.
Titill ritgerðarinnar er: Fjölbreytileiki hryggleysingja í lindum á Íslandi
Rannsóknin náði til 49 linda víða á landinu þar sem samfélagsgerðir hryggleysingja voru rannsakaðar. Voru sýni tekin niðri í uppsprettunum sjálfum og á yfirborði í eins til tveggja metra fjarlægð frá hverri uppsprettu. Auk þess voru umhverfisbreytur mældar s.s. hiti, pH og leiðni.
Algengustu hópar hryggleysingja voru rykmý (Chironomidae), skelkrabbi (Ostracoda) og árfætlur (Copepoda). Vatnshiti skýrði mestan hluta af þeim breytileika sem var á tegundasamsetningu hryggleysingja í lindunum. Gerðir linda og staðsetning skýrðu einnig stóran hluta af þessum breytileika. Töluverður árstíðabreytileiki kom fram í tegundasamsetningu hryggleysingja innan sama lindakerfis, þrátt fyrir að hiti þeirra væri stöðugur allt árið. Í mörgum þeirra linda sem rannsóknin náði til voru dvergbleikjur algengar. Fæða þeirra endurspeglaði árstíðabreytingar í tegundasamsetningu hryggleysingja. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á samfélög og breytileika meðal vistkerfa linda á Íslandi, sem lítið hafa verið rannsakaðar til þessa. Auk þess gefa niðurstöðurnar þarft yfirlit, sem hægt er að byggja á við ákvörðun um verndun þessara einstöku vistkerfa sem lindir hafa skapað.
Niðurstöður verkefnisins hafa nú þegar verið birtar í þremur vísindagreinum og er ein grein til viðbótar tilbúin til birtingar. Hlekkur á opinvisindi.is
Leiðbeinendur í doktorsverkefni Keru voru: Prófessor Bjarni Kr. Kristjánsson við Hólaskóla, Dr. Jón S. Ólafsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og Prófessor Snæbjörn Pálsson við Háskóla Íslands. Auk þeirra voru í doktorsnefnd, Dr. Árni Einarsson við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og Dr. Eoin O‘Gorman við háskólann í Essex á Englandi.
Ljósm. Agnes-Katharina Kreiling