Dagur kvenna í vísindum

Þórunn Þórðardóttir Þórunn Þórðardóttir

Í dag 11. febrúar er alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum. Það er vel við hæfi að segja frá merkri vísindakonu, Þórunni Þórðardóttur (1925-2007), sérfræðingi á sviði svifþörunga hjá Hafrannsóknastofnuninni og frumkvöðli í sjávarlíffræði.

Þórunn Þórðardóttir svifþörungafræðingur, fæddist að Einarsstöðum á Grímsstaðaholti í Reykjavík 15. maí 1925 og ólst upp í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1944, fór utan til náms við Lundarháskóla í Svíþjóð og síðar við Blindren í Ósló. Hún lauk náminu í Ósló 1955 með mag.scient. gráðu sem sjávarlíffræðingur með svifþörunga sem sérgrein.

Að loknu námi kom Þórunn til starfa hjá Hafrannsóknastofnuninni 1956, sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að verða sérfræðingur á sínu sviði í hafrannsóknum og þurfti oftar en ekki á allri sinni þolinmæði og umburðalyndi að halda til þess að standa á sínu í því karlaveldi sem þá ríkti á þessu fræðasviði. Þórunn vann við sitt sérsvið allan sinn starfsaldur hjá stofnuninni, lengst af sem deildarstjóri á þörungadeild.

Hún var frumkvöðull í rannsóknum á svifþörungum í sjó við Ísland. Eitt helsta afrek hennar voru rannsóknir og mat á heildar frumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum sem er undirstaða fæðukeðju hafsins. Var hún á meðal fyrstu sjávarlíffræðinga til að nota svokallaða geislakolsaðferð til að meta framleiðni í sjónum. Þórunn aðlagaði þá aðferð að íslenskum aðstæðum og enn í dag eru mælingar hennar í fullu gildi.

Niðurstöður um ársframleiðni svifþörunga á hafsvæðinu birti hún í vísindagreinum ásamt upplýsingum um framvindu gróðurs á svæðinu, eins og lesa mátti úr þeim gögnum sem hún safnaði. Ritsmíðar hennar um svifgróðurinn í hafinu urðu margar. Þær birtust bæði í íslenskum ritum og á erlendum vettvangi.

Þórunn var afar vandvirk vísindakona og hafði góða yfirsýn yfir fræðasviðið. Hún var virk í alþjóðlegu samstarfi og skildi betur en flestir aðrir þörfina á að efla þekkingu á undirstöðum lífsins í sjónum. Hún var vakin og sofin yfir rannsóknunum og þegar hún fór heim eftir langan vinnudag á stofnuninni tók hún oftar en ekki með sér bunka af gögnum og fræðigreinar til að líta í á kvöldin.

Þórunn hafði alla tíð brennandi áhuga á starfi sínu og ástríða hennar var smitandi, enda ófáir, bæði starfsmenn og nemar, sem fengu notið þekkingar hennar og kennslu hvort sem var í tegundagreiningum svifþörunga, mælingum á frumframleiðni, eiturþörungarannsóknum eða öðrum rannsóknum sem lutu að svifþörungum. Það voru forréttindi að vinna með Þórunni, hún var mjög skemmtilegur félagi og bar mikla umhyggju fyrir samstarfsfólki sínu.

Þórunn hlaut heiðursviðurkenningu Lýðveldisstjóðs Alþingis 17. júní 1997 fyrir framlag sitt til rannsókna í hafinu við Ísland.

mynd frá Hafrannsóknastofnun

Þórunn Þórðardóttir, lengst til hægri.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?