Nýútkomin grein um botndýrasamfélög á úthafsrækjusvæði fyrir norðan land

1. mynd. Staðsetning stöðva (punktar sýna hvar myndir voru teknar og stjörnur hvar botngreipar voru … 1. mynd. Staðsetning stöðva (punktar sýna hvar myndir voru teknar og stjörnur hvar botngreipar voru teknar) og veiðiálag með rækjuvörpu á rannsóknasvæðinu.

Nýlega kom út grein í tímaritinu „Marine Biology Research“ um botndýrasamfélög á úthafsrækjusvæði fyrir norðan land. Greinin ber heitið „Benthic community structure on offshore northern shrimp (Pandalus borealis) grounds north of Iceland“ og eru Ingibjörg G. Jónsdóttir og Steinunn H. Ólafsdóttir sérfræðingar á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar tveir af fjórum höfundum greinarinnar. Aðrir þátttakendur verkefnisins komu frá Zoological Society of London og Eurofleets lagði til rannsóknaskip.

Veiðar á úthafsrækju hófust árið 1974 fyrir norðan land og náðu hámarki 1994-1997 þegar aflinn var um 62,000 tonn. Veiðar hafa minnkað töluvert síðan þá og voru í lágmarki árið 2004 þegar aðeins 600 tonnum var landað af úthafsrækju. Botnvarpa er notuð við veiðarnar en engar upplýsingar lágu fyrir um vistkerfi botndýra á svæðinu.

Í júlí 2015 var farið í 4 daga leiðangur á færeyska rannsóknaskipinu RV Magnus Heinason. Í leiðangrinum voru teknar myndir af hafsbotninum og sýni tekin með botngreip. Þannig var hægt að skoða bæði lífverur sem lifa í og á botninum. Sýni voru tekin allt frá Norðurkanti í vestri að Sléttugrunni í austri og miðað við að taka sýni á svæðum þar sem rækjuveiðar fara fram (1. mynd). Allar tegundir sem fundust á og í botninum voru greindar.

Þó töluverð vegalengd væri á milli stöðva þá voru búsvæðin áþekk. Þau einkenndust af mjúkum botni þar sem uppistaðan var sandur og leir. Svæðið fyrir norðan land er hins vegar ekki alveg svona einsleitt en til dæmis á Kolbeinseyjarhrygg eru búsvæði sem mótast af hörðum hraunbotni en þar fara rækjuveiðar ekki fram og því var svæðið ekki skoðað í þessum leiðangri.

Alls voru 83 hópar/tegundir greindir í botnsetinu og 53 af ljósmyndum. Af þeim tegundum sem dvelja ofan í botnsetinu voru burstaormar algengastir. Þeir eru mjög algengir í mjúki seti á mismunandi svæðum og dýptarbilum en þeir hafa mikla aðlögunarhæfni. Slöngustjörnur voru algengastar af þeim tegundum sem lifa ofan á botnsetinu en einnig sáust rækjur á um helming stöðvanna (2. mynd). Á ljósmyndum sjást stærri lífverur eins og sæfjaðrir (3. mynd). Ekki fannst neinn munur í samfélögum á milli svæða.

mynd af botni sjávar norðan við land

2. mynd. Rækja ásamt ormarörum og holum eftir lífverur á mjúkum botni.

Þessi rannsókn gefur upplýsingar um botndýrasamfélög árið 2015 en frekari rannsókna er þörf til að meta áhrif umhverfis og/eða veiða á þessi búsvæði.

mynd af sjávarbotni norðan við land

3. mynd. Sæfjaðrir (Virgularia sp.) á mjúku seti. Þær hafa stilk sem fer ofan í setið og festir þær niður

 

Hlekkur á greinina 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?