Hafrannsóknastofnun hlýtur styrk til rannsókna á stofnerfðafræði síldar

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknastofnun hlýtur styrk til rannsókna á stofnerfðafræði síldar

Hafrannsóknastofnun hefur hlotið styrk frá fyrirtækjum í uppsjávariðnaði í þeim tilgangi að styrkja síldarverkefni, um ríflega 4,3 milljónir.
Um er að ræða framhald á samnorrænu rannsóknaverkefni um stofnerfðafræði síldar í Noregshafi og hafsvæðunum í kring og aðgreiningu þeirra með erfðafræðilegum aðferðum. Afli síldar fyrir austan Ísland og í Noregshafi er gjarnan blanda af fleirum en einum stofni og umfangið verið meira tvö síðustu sumur og haust en áður. Það hefur skapað miklar áskoranir og óvissu.

Íslenska sumargotssíld má greina frá norsk-íslenskri vorgotssíld með skoðun á kynkirtlum og þroskastigi þeirra. Sú aðferð er notuð við aðgreiningu þeirra í afla og við stofnstærðarrannsóknir. Hins vegar hefur ekki verið hægt að greina íslenska sumargotssíld frá meðal annars sumar/haust hrygnandi síldarstofnum frá Noregi eða Færeyjum með slíkri aðferð né með erfðafræðilegum aðferðum. Allir þessir stofnar geta veiðst í blandi við norsk-íslenska síld en hversu austarlega nær sú íslenska og hvaða síld er blönduð við norsk-íslenska síld austar? Þessari spurningu hefur verið reynt að svara með fyrri verkefnum sem byggja á erfðafræðilegum rannsóknum en greiningarhæfni vantar til að aðgreina sumar- og haustgotssíldarstofna á þessu svæði.

Markmið þessa framhaldsverkefnis Hafrannsóknastofnunar er að kortleggja allt erfðamengi íslenskrar sumargotssíldar (e.whole genome sequencing), en einnig verður gert það sama við hausthrygnandi síldarstofna við Noreg og Færeyjar af þarlendum stofnunum til samanburðar. Íslensk fyrirtæki í uppsjávariðnaðinum munu greiða greiningar og úrvinnslu íslensku sýnanna en þarlendir aðilar munu kosta greiningar hinna stofnanna.

Með greiningum á öllu erfðamengi þessara stofna má þróa erfðamörk sem hægt er að nota til að aðgreina þá, sem er lokamarkmið þessa verkefnis. Afurð verkefnisins og nýnæmi verður því erfðamörk sem hægt er að nota til að aðgreina íslenska sumargotssíld frá öðrum síldarstofnum í afla og við stofnmælingar, en hvort tveggja hefur verið að ábótavant undanfarin ár.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?