LIFE ICEWATER verkefnið hlýtur 3,5 milljarða styrk frá Evrópusambandinu

LIFE ICEWATER verkefnið hlýtur 3,5 milljarða styrk frá Evrópusambandinu

Hafrannsóknastofnun er í hópi 22 aðila sem hafa undir forystu Umhverfisstofnunar hlotið 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið LIFE ICEWATER. Þetta verkefni hefur það að markmiði að efla og flýta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Þessi styrkur er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið frá evrópskum samkeppnissjóði.

Áhersla Hafrannsóknastofnunar á ráðgjöf um vatnamál 

Hafrannsóknastofnunar leiðir einn vinnupakka verkefnisins og tekur þátt í fjölmörgum öðrum verkþáttum. Helstu áhersluatriði stofnunarinnar er almenn ráðgjöf um vatnamál og vöktun og söfnun gagna um ferskvatn, árósavatn og strandsjó. Einnig er lögð áhersla á fjölbreytta miðlun á upplýsingum og þekkingu.

Verkefnið gefur tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum. Vinna við verkefnið hefst í janúar 2025 og lýkur árið 2030.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Umhverfisstofnunar.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?