Myndræn framsetning á tilgátu um hvernig göngumynstur makríls breytist með aldri og stærð. Myndin er úr vísindagreininni.
Nýlega birtist vísindagrein þar sem notuð voru gögn um endurheimtur rafaldskennimerkja (RFID) til að rannsaka göngumynstur makríls. Alls voru 430 þúsund fiskar merktir við vesturströnd Írlands og Skotlands, og við Snæfellsnes á árunum 2011 – 2021.
Í rannsókninni var stuðst við endurheimtur 1-3 árum eftir merkingu eða alls 7522 endurheimtur. Niðurstöður sýna að eftir því sem makríll eldist og stækkar (lengd eykst) gengur hann lengra til norðurs í Noregshafi og til vesturs inn í landhelgi Íslands og sum ár inn á grænlenskt hafsvæði. Algengt er að ganga 3-4 ára (32-34 cm) makríls sé takmörkuð við suðurhluta Noregshafs, 4-5 ára (34-35 cm) fiskur gengur norðar inn í norðurhluta Noregshafs, og 5+ ára (>35 cm) fiskur gengur í vestur inn í íslenska landhelgi og enn lengra í norður í átt að Svalbarða (mynd).
Stærð makríls er ekki eini þátturinn sem stjórnar gönguleiðinni þar sem mikill munur er á milli ára á göngumynstri eftir stærð. Það bendir til að umhverfisskilyrði, eins og hafstraumar og fæðuskilyrði, og stofnstærð hafi einnig áhrif á göngumynstur. Niðurstöður um fjarlægðir frá merkingastað á hrygningarslóð að heimtustað og þann sundhraða makríls sem þyrfti til að komast á milli benda til þess að miklar líkur séu á því að makríll gangi beint inn í íslenska efnahagslögsögu í norðvestur frá Írlandi, fyrir sunnan Færeyjar, án þess að fara fyrst inn í Noregshaf.
Tveir sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun, Anna Heiða Ólafsdóttir og Sigurður Þór Jónsson, eru meðhöfundar að greininni.
Hlekkur á greinina.
Tilvitnun í greinina:
Ono K, Slotte A, Hølleland S, Mackinson S, Jónsson SÞ, Jacobsen JA and Ólafsdóttir AH (2022) Space-time recapture dynamics of PIT-tagged Northeast Atlantic mackerel (Scomber scombrus) reveal size-dependent migratory behaviour. Front. Mar. Sci. 9:983962. doi: 10.3389/fmars.2022.983962