Við fögnum Alþjóðlegum degi kvenna í vísindum!

Glæsilegur hópur vísindakvenna sem starfa á Hafrannsóknastofnun. Flestar en ekki allar því einnig st… Glæsilegur hópur vísindakvenna sem starfa á Hafrannsóknastofnun. Flestar en ekki allar því einnig starfa konur á starfstöðvum stofnunarinnar á landsbyggðinni sem ekki eru á myndinni. Einnig voru vísindakonur að störfum út á sjó þegar myndin var tekin og þær sendu myndir af sér í tilefni dagsins.
Ath. að smella á myndinni hér ofar til að sjá hana stærri.

Í dag 11. febrúar fagnar Hafrannsóknastofnun Alþjóðlegum degi kvenna í vísindum. Reyndar gott betur því í ár er 10 ára afmæli dagsins og 30 ár frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing. Við það tilefni voru gefin fyrirheit um bættan hlut kvenna um allan heim og stjórnvöld margra landa samþykktu framkvæmdaáætlun sem hafði það markmið að skila árangri í jafnréttismálum. Alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum er því skilgetið afkvæmi kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Beijing árið 1995 og aðgerðaáætlunar sem samin var í kjölfarið.

Á Íslandi njóta konur meira jafnréttis þegar kemur að þátttöku í vísindastörfum og tækifærum til náms en víða í heiminum. En það er ekki langt síðan að konur fengu ekki brautargengi til náms og í vísindastörfum hérlendis. Eitthvað sem flestum þykir fásina í dag og sem betur fer hefur þessi staða breyst hægt og rólega á liðnum árum og áratugum.

Fyrir 50 árum eða árið 1975 voru konur aðeins 9% starfsmanna Hafrannsóknastofnunar, eða 14 af alls 125 starfsmönnum og heyrðist stundum sagt að það þætti ekki vera kvenmannsverk að fara í rannsóknarferðir á sjó, þó vissulega hafi fáar en öflugar vísindakonur farið í slíkar ferðir á þessum tíma. Þó ber að geta þess að hlutfall kvenna var ívið hærra ef horft er til þess starfsfólks sem ekki var í áhöfn eða alls 19%. 25 árum síðar eða árið 2000 voru 194 starfsmenn við stofnunina. Þar af voru 53 konur eða 27% af heildarfjölda starfsmanna en 34% sé ekki horft til áhafna því enn voru konur ekki hluti af áhöfnum nema í undantekningatilfellum. Og aftur 25 árum síðar, árið 2025 eru konur orðnar 36% af heildarstarfsmannafjölda en 45% sé horft til starfsmanna utan áhafna þannig að hlutfall kvenna meðal vísindafólks hefur farið hægt og rólega hækkandi þó svo karlar séu enn ívið fleiri.

Þó svo þróunin hafi verið konum í hag á Íslandi á sl. áratugum er staða stúlkna og kvenna víðsvegar í heiminum gagnvart námi og þátttöku í vísindastarfi enn víða jafn erfið (og erfiðari) en hún var á Íslandi um miðbik síðustu aldar og fyrr og því er mikilvægt að fagna deginum með hvatningu til allra stúlkna og kvenna um að sýna vísindum áhuga og taka þátt í vísindastarfi.

Jafnrétti kynjanna í vísindum skiptir sköpum til að byggja upp betri framtíð fyrir öll samfélög, en konur og stúlkur halda áfram að standa frammi fyrir kerfisbundnum hindrunum við að stunda vísindastörf.

Til að minnka kynjabilið í vísindum þarf að brjóta niður staðalímyndir, efla fyrirmyndir til að veita stúlkum innblástur, styðja framfarir kvenna með markvissum áætlunum og efla umhverfi án aðgreiningar með stefnu og aðgerðum sem stuðla að þátttöku, fjölbreytileika og jafnrétti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?