Áhrifasvæði Úthafssáttmálans er stórt þar sem 71% plánetunnar er haf og yfir 60% af hafsvæðum eru úthöf. Mynd. NASA.
Þann 4. mars var gerður nýr úthafssamningur Sameinuðu þjóðanna en í samningnum er m.a. að finna regluverk um afmörkun svæða sem ekki lúta stjórn ríkja og þar sem aðrar alþjóðastofnanir hafa ekki valdheimildir yfir. Þetta er mikilvægt skref í átt að því að ná markmiðum Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework samningsins (https://www.cbd.int/article/cop15-final-text-kunming-montreal-gbf-221222) sem gerður var í lok árs 2022, en í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030 og hefur sá samingur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum.
Meginmarkmið Kumning-Montreal samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni sem minnkar nú mun hraðar en áður á þekktum jarðsögulegum tíma. Líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur nýtingar auðlinda enda tryggir hún seiglu í vistkerfum, meðal annars gagnvart hröðum umhverfisbreytingum, s.s. loftslagsbreytingum og súrnun sjávar. Það er því mikið í húfi að þetta markmið náist.
Vernd 30% svæða fyrir árið 2030 er eitt af takmörkum Kumning-Montreal samningsins og á það við bæði land- og hafssvæði. Í nýja úthafssamningnum er settur fram lagalegur rammi sem gefur ríkjum færi á að tilnefna alþjóðleg hafsvæði til verndunar, en önnur ríki þurfa að samþykkja þær tillögur. Ákveða þarf hvaða haf- og vatnasvæði skal vernda og hvernig vernd þeirra skal háttað. Til að geta svarað þessu þarf að horfa til margra þátta, ekki síst til líffræðilegrar fjölbreytni.
Líffræðileg fjölbreytni er flókið hugtak sem getur átt við erfðabreytileika, tegundafjölbreytni, fjölbreytni í eiginleikum lífvera svo eitthvað sé nefnt. Því má spyrja: Hvers konar líffræðilega fjölbreytni skal forgangsraða til verndar?
Hafrannsóknastofnun fagnar þeim áföngum sem hafa náðst með úthafssamningnum og Kumning-Montreal samningnum en bendir jafnframt á að krefjandi verkefni eru fyrir höndum sem verða ekki leyst án víðtækrar þekkingar á vistkerfum. Ákvarðanir um gerð verndunar, staðsetningu verndarsvæða og vöktun á þeim svæðum þurfa að byggja á bestu mögulegum upplýsingum. Síðustu áratugi hefur þekking aukist mikið en ennþá vantar lykilupplýsingar um vistkerfi, líffræðilega fjölbreytni og búsvæði sem mikilvægt er að hafa á þeirri vegferð sem framundan er.
Þá er mikilvægt að þekkingarsköpun og ákvarðanataka byggi á samráði á milli aðila með ólík sjónarmið og hagsmuni. Hafrannsóknastofnun tekst bjartsýn á við þetta stóra verkefni og hvetur til almennrar þátttöku í þessu samtali.