Út við á í grænum dal, þar leynast töfrarnir

Fjóla Rut Svavarsdótttir starfar sem líffræðingur á Ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknastofnunar.… Fjóla Rut Svavarsdótttir starfar sem líffræðingur á Ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknastofnunar. Aðrar myndir af Fjólu Rut á síðunni eru af henni í "feltinu" eins og það er kallað eða rannsóknaferðum.

Fjóla Rut Svavarsdóttir starfar sem líffræðingur á ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknastofnunar. Hún kom til starfa hjá stofnuninni árið 2018, þá 29 ára gömul en hafði þá þegar átta ára stafsreynslu að baki á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum þó svo þar hefði hún að mestu starfað á sumrin og samhliða námi.

Fjóla segir að það hafi sumpart verið tilviljun að hún skráði sig í nám í líffræði og hélt út á braut vísindanna. Hún hafi velt fyrir sér grafískri hönnun, svo ólíkt sem það starf er því sem Fjóla sinnir í dag, þannig að líklega hafi röð tilviljana ákveðið hvar hún starfi í dag. En kannski ekki!

Hún segir að líffræðin hafi nefnilega heillað og því alltaf verið valkostur að fara í háskólanám í því fagi. Eftir menntaskóla tók hún til starfa á Keldum og má segja að þar með hafi takturinn fyrir framtíðina verið sleginn og ekki aftur snúið. Fyrstu árin eftir menntaskóla snerist lífið um líffræði í HÍ, fyrst grunnám, síðar meistaranám og svo sumarstörf tengd náminu á Keldum. En lífið snerist líka um fjölskylduna því Fjóla eignaðist elsta son sinn 23 ára gömul og því einkenndist fullorðinslífið eftir menntaskóla ekki bara af vísindarannsóknum í námi og starfi heldur einnig af barnauppeldi. En reyndar líka af blaki en Fjóla var lengi öflug blakkona, og á að baki með tæplega 50 landsleiki á blakinu, og grípur enn reglulega í boltann. Enda er lífið ekki bara fiskur undir steini.

Fjóla segir að helsti áhrifavaldur í hennar faglega lífi hafi verið Árni Kristmundsson, deildarstjóri Rannsóknadeildar fisksjúkdóma á Tilraunastöð HÍ, en hún starfaði undir hans stjórn þau ár sem hún starfaði á Keldum. Meistararitgerðin hennar fjallar um Sníkjudýr í laxfiskum (Proliferative kidney disease (PKD) in Icelandic fresh water. ) svo rannsóknarefnið var rökrétt val eftir árin á Keldum.

„Hinsvegar var ég á góðri leið með að verða eins og heimaríkur hundur á Keldum og þekkti ekki annað starfsumhverfi í mínu fagi, sem varð til þess að ég sótti um á Hafrannsóknastofnun árið 2018, tveimur árum eftir að Veiðimálastofnun hafði sameinast stofnuninni. Ég ákvað að láta slag standa og sækja um en var þess fullviss að ég fengi ekki starfið því ég var ólétt og komin fimm mánuði á leið af miðsyni mínum sem nú er sex ára. Ég taldi ljóst að þessi staða væri ekki umsókn minni til framdráttar!“

En viti menn, Fjóla var ráðin og vann í fáeina mánuði hjá Hafrannsóknastofnun en fór í fæðingarorlof eftir að hún eignaðist barnið og kom svo tvíefld til baka. Sem segir sína sögu um mikilvægi þess að grípa gott fólk í sérhæfð vísindastörf þó svo persónulegar aðstæður geti verið hamlandi tímabundið. Um leið er þessi frásögn Fjólu úr ráðningaferlinu áminning um stöðu kvenna í vísindum sem karlar standa ekki frammi fyrir – þó allt hafi þróast á besta veg fyrir bæði hana og Hafrannsóknastofnun og ráðning hennar hafi verið fengur fyrir ferskvatnsvísindin hérlendis.

Fjóla sér ekki fyrir sér frekara nám í bili alla vega, en finnst það heillandi tilhugsun að sinna sértækum rannsóknastörfum í tengslum við styrkumsóknir í framtíðinni en eins og sakir standa og sl. ár hefur hún einkum sinnt þeim verkefnum hafa lent á hennar borði og hafa verið fjölbreytt.

„Ég hef verið í ýmsum verkefnum á mínu sviði síðan ég hóf hér störf; grunnrannsóknum, vöktun, þjónusturannsóknum og ráðgjöf. Þau snúa einkum að ferskvatni; s.s. vöktun og rannsóknum á fiskstofnum, einkum í ám en einnig í vötnum. Ég hef líka komið að vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna og svo hefur vinna í tengslum við lög um stjórn vatnamála verið fyrirferðarmikil í mínu starfi sl. ár. Það er málaflokkur sem heldur áfram að vaxa og mér finnst bæði heillandi og lærdómsríkt að stjórn vatnamála snýr að mörgu öðru en eingöngu líffræðilegum þáttum. Einnig efna- og eðlisefnafræði, atvinnulífi, skipulagi og öðrum samfélagslegum þáttum. Þegar ég byrjaði á þessu verkefni áttaði ég mig til dæmis ekki á hlutum eins og muninum á lögum og reglugerðum – sem ég geri nú! Þannig að þetta verkefni og mörg önnur er endalaus lærdómsferill og frábært að vinna áfram að þessu verkefni undir stjórn Eydísar Salome Eiríksdóttur jarðefnaverkfræðings hér á stofnuninni.“

Aðspurð hvað sé skemmtilegast við starfið segir Fjóla hve fjölbreytt það er. „Maður hættir aldrei að læra eitthvað nýtt og hverju verkefni fylgja nýjar áskoranir. En allra best er þegar maður fær tækifæri til að móta eigið verkefni, setja það upp og skipuleggja, hanna verklega þáttinn og skila svo frá sér heildinni í skýrslu. Það er góð tilfinning að setja punktinn eftir langan feril á rannsóknarverkefni,“ segir Fjóla.

Fjóla sinnir annasömu heimili ásamt eiginmanni sínum Guðmundi H. Gíslasyni verkfræðingi en hún á þrjá drengi á aldrinum 2ja, 6 og 12 ára, þá Birki Leó, Jónas Smára og Alexander Svavar. Þannig að það er aldrei lognmolla í kringum Fjólu og hefur líklega aldrei verið, hvorki heima né í vinnunni.

„Það er margt sem er skemmtilegt og gefandi við starfið. Ég verð þó að nefna að töfrarnir liggja þarna úti í náttúrunni. Eins og ég nefndi þá er ég með annasamt heimili og drengirnir mínir bæði hressir og dásamlegir. Svo það er stundum frábært að komast í burtu í vinnuferðir og bestu stundirnar mínar í starfi er þegar ég sit út við á, í gróðursælum dal, með frábærum vinnufélögum, á fallegu sumarkvöldi í góðu veðri við rafveiðar*. Mæli seiði og skrái. Annað okkar les upp lengd seiðanna: 4,5 – 6,7 – 5,9 8,2 cm og hitt skráir stærðirnar. Einfalt og fyrirsjáanlegt verkefni, ró og fullkomin núvitund. Ekkert að trufla bara nákvæmar mælingar í þágu rannsókna lífríkis í ferskvatni, frábærir vinnufélagar og litlu seiðin sem við sleppum svo út í ánna örlítið vönkuð eftir rafstuðið. Það er sko lífið!“

*rafveiði er sú aðferð að veiða seiði með vægum rafstraumi sem rotar þau í stuttan tíma en nægilega langan til að hægt sé að mæla þau. Þeim er svo sleppt aftur í ánna og bera engan skaða af meðferðinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?